Erlent

Klámstjarna Deep Throat öll

Nordicphotos/Getty
Harry Reems, aðalleikarinn í klámmyndinni Deep Throat, er látinn 65 ára að aldri. Banameinið var krabbamein í brisi.

Reems, sem hét réttu nafni Herb Streicher, var einn ljósamannanna sem starfa átti við upptökur á myndinni umdeildu frá 1972. Þegar aðalleikarinn forfallaðist fékk leikstjórinn, Gerard Damiano, Reems til þess að fylla í skarðið. Varð þá til nafnið Harry Reems.

Deep Throat, sem framleidd var fyrir 25 þúsund dali eða sem nemur rúmum þremur milljónum króna á núvirði, var fyrsta klámmyndin sem vakti athygli fyrir alvöru. Nafn myndarinnar er vísun í viðurnefni uppljóstrarans sem veitti blaðamönnum Washington Post, Woodward og Bernstein, upplýsingar í tengslum við Watergate-málið.

Reems varð að stórstjörnu í klámheiminum en vörumerki hans var þykkt yfirvaraskegg. Hann átti um langan tíma í vandræðum með áfengisfíkn en fann frið hjá AA-samtökum í Park City í Utah árið 1990. Þar fór hann að rækta kristna trú, kvæntist eftirlifandi eiginkonu sinni og opnaði fasteignasölu.

Reems kom við sögu í heimildarmyndinni Inside Deep Throat þar sem bros hans og hvítt hár varð til þess að fólk nefndi hann Steve Martin klámsins.

Deep Throat



Fleiri fréttir

Sjá meira


×