Flest bendir til þess að David Moyes verði nýr stjóri Englandsmeistaranna. Everton hefur staðfest að Moyes hverfi frá félaginu í lok leiktíðar vegna þess að hann vilji taka við United.
Breskir miðlar greina frá því að David Moyes sé á leiðinni til Manchester og eru sjónvarpsmiðlar á borð við Sky og BBC með sjónvarpsfréttamann á staðnum. Fullyrt er að Moyes muni taka við félaginu af landa sínum Sir Alex Ferguson.
Á Facebook síðu Manchester United gafst fólki möguleiki á að bjóða nýjan stjóra, David Moyes, velkominn til starfa. Félagið eyddi síðar færslunni og sagðist ekki átta sig á því hver hefði skrifað færsluna. Ekkert væri frágengið.
Moyes hefur stýrt Everton í ellefu ár eða frá árinu 2002.
