Enski boltinn

Stuðningsmaður Leeds sló Kirkland - myndband

Sorgleg uppákoma átti sér stað í leik Sheffield Wednesday og Leeds í ensku B-deildinni í kvöld. Stuðningsmaður Leeds hljóp þá inn á völlinn og kýldi Chris Kirkland, markvörð Sheff. Wed, í andlitið.

Atvikið átti sér stað í kjölfar þess að Leeds jafnaði metin í 1-1 stundarfjórðungi fyrir leikslok. Nokkrir stuðningsmanna Leeds hlupu úr stúkunni og fögnuðu við mark heimamanna. Einn gekk þó lengra en aðrir, hljóp að Kirkland og sló hann í andlitið.

Árásina má sjá í myndskeiðinu hér ofan.

Stöðva þurfti leikinn út af atvikinu þar sem huga þurfti að markverðinum en atvikið kom honum í opna skjöldu. Svo virtist sem hann ætlaði að hundsa fíflalæti stuðningsmannsins sem gekk langt yfir strikið.

Neil Warnock, stjóri Leeds, fór fram á það eftir leikinn að ofbeldisfulli áhorfandinn yrði fangelsaður fyrir þessa hegðun. Dave Jones, stjóri Wednesday, lét hafa eftir sér að banna ætti stuðningsmenn Leeds á útivöllum. Umræddur áhorfandi hefur áður komist í kast við lögin fyrir skrípalæti á knattspyrnuleikjum.

Sheffield Wednesday komst 1-0 yfir í fyrri hálfleik með skallamarki Jay Bothroyd. Heimamenn voru sterkari aðilinn heilt yfir en stórkostlegt mark Michael Tonge, miðjumanns Leeds, sá liðinu fyrir stigi. Það var í kjölfar langskots Tonge sem stuðningsmaðurinn réðst á Kirkland.

Leeds United situr í 5.-6. sæti deildarinnar með 18 stig en Sheffield Wednesday er í þriðja neðsta sæti með 9 stig.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×