Jóhann Laxdal er orðin internetstjarna en fögnuður Stjörnumanna gegn Fylki um helgina hefur farið eins og eldur um sinu á netinu síðustu daga.
Jóhann lék lax sem er dreginn að landi af Halldóri Orra Björnssyni sem skoraði sigurmark Stjörnumanna í leiknum úr vítaspyrnu.
Fjölmargir erlendir fjölmiðlar hafa fjallað um atvikið enda þykir það einstaklega vel heppnað.
„Þetta er ekkert nema jákvætt og gaman," sagði Jóhann í samtali við Vísi í dag. Hann sagðist ekki hafa æft spriklið sérstaklega.
„Nei, þetta fylgir bara nafninu. Það hlaut að vera að ég gæti þetta," sagði hann í léttum dúr. „En við æfðum þetta reyndar einu sinni inn í klefa en yfirleitt er þetta óæft hjá okkur."
Hann segir fleiri „fögn" í burðarliðnum, þar á meðal eitt með bróður hans, Daníel. „Ég vona bara að hann fari að skora fljótlega," sagði Jóhann.