Valur og Breiðablik tryggðu sér í dag sæti í bikarúrslitaleik VISA-bikars kvenna eftir sigra á heimavelli í undanúrslitaleikjunum.
Valur vann 5-0 sigur á Stjörnunni á Vodafone-vellinum. Rakel Logadóttir skoraði tvö mörk og þær Katrín Jónsdóttir, Kristín Ýr Bjarnadóttir og Dóra María Lárusdóttir skoruðu eitt mark hver.
Erna Björk Sigurðardóttir, fyrirliði Breiðabliks, tryggði Blikum 2-1 sigur á Fylki í framlengingu með sínu öðru marki í leiknum. Anna Björg Björnsdóttir jafnaði leikinn fyrir Fylki og tryggði Árbæjarliðinu framlengingu.
Þetta verður í áttunda sinn sem Valur og Breiðablik leika til úrslita í bikarkeppni kvenna en þau mættust síðast árið 2006.