Erlent

Aðild Úkraínu og Georgíu ógn við öryggi í Evrópu

Dímítrí Medvedev er hér ásamt Vladímír Pútín.
Dímítrí Medvedev er hér ásamt Vladímír Pútín. MYND/AP
Dímítrí Madvedev, nýkjörinn forseti Rússlands, segir það ógn við öryggi Evrópu ef Úkraína og Georgía gangi til liðs við Atlantshafsbandalagið. Í viðtali við Finacial Times segir Medvedev að ekkert ríki geti sætt sig við að fulltrúar herbandalags, sem það tilheyrir ekki, kom nálægt landamærum ríkisins.

Medvedev segir enn fremur í viðtalinu að meirihluti Úkraínumanna sé andvígur NATO-aðild en stjórnvöld séu á annarri skoðun. „Þetta er spurning um raunverulegt lýðræði og að minnsta kosti ætti að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um málið," segir Medvedev sem tekur við af Vladímír Pútín sem Rússlandsforseti þann 7. maí.

Bæði Úkraína og Georgía hafa óskað eftir því að fá áætlun um aðild að NATO sem er talið fyrsta skrefið að inngöngu í bandalagið. Búist er við að leiðtogar NATO-ríkja muni á fundi sínum í Búkarest í næsta mánuði fjalla um umsókn ríkjanna tveggja. Rússar hafa þrýst mjög á um að þeim verði ekki að ósk sinni enda óttast þeir að Bandaríkjamenn muni koma kjarnorkuvopnum fyrir í ríkjunum tveimur og þannig ógna öryggi Rússlands.

Vladímír Pútín hefur þegið boð um að koma á fundinn í Búkarest en þangað mætir einnig George Bush Bandaríkjaforseti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×