Erlent

Norskur verktaki svindlar á pólskum verkamönnum

Norskur byggingarverktaki hefur svindlað á pólskum verkamönnum og norska ríkinu með því að stofna stöðugt ný fyrirtæki sem taka að sér verkefni en greiða helst ekki laun eða virðisaukaskatt.

Pólskir byggingaverkamenn í Noregi hafa brennt sig á Kjell Torvlund. Þeir segjast ekki hafa fengið borgað nema kanski rétt í byrjun.

Sjónvarpsmenn á Stöð tvö í Noregi hafa fylgst með Kjell Torvlund í tvö ár. Hann tekur að sér verk í nafni ýmissa fyrirtækja, ræður pólska verkamenn til starfans og svíkur þá svo um laun.

Torvlund rukkar virðisaukaskatt fyrir hið opinbera en hefur aldrei skilað honum inn. Þegar hann var spurður um málið, þá voru viðbrögðin þau að hann hótaði fréttamanni með hamri og hljóp á eftir honum. Asbjörn Leirvaag fréttamaður átti fótum sínum fjör að launa.

Pólsku verkamennirnir segja að Torvlund sé sannkallaður svikahrappur. Einn þeirra segir að hann skuldi sér laun sem nemi hálfs árs launum verkamanna í Póllandi.

Þó að svikin séu augljós þá tekur Torvlund enn að sér verkefni. Pólskir starfsmenn hans eru hins vegar sumir á leið heim, til að halda jól með fjölskyldum sínum, hýrudregnir og vonsviknir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×