Erlent

Frystir aftur í samskiptum Norður- og Suður-Kóreu?

Útlit er fyrir að aftur frysti í samskiptum Norður- og Suður-Kóreu eftir þýðu síðustu misserin. Verðandi forseti Suður-Kóreu er ákveðinn í því að Norður-Kóreumenn láti af öllum draumum um kjarnorkuvopn.

Lee Myung-bak sigraði með yfirburðum en þrír voru í framboði. Lee fékk tæplega helming greiddra atkvæða en Chung Dong-young, frambjóðandi stjórnarflokks Roh Moo-hyun, fráfarandi forseta, fékk rétt rúm tuttugu og sex prósent. Íhaldsmenn hafa engu ráðið í Suður-Kóreu í áratug en flokkur Lee fær nú völdin aftur.

Lee er sagður harður í horn að taka enda með viðurnefnið "jarðýtan". Hann er fyrrverandi stjórnandi hjá Hyundai. Hann er langt frá því óumdeildur. Í kosningabaráttunni var hann sakaður um óheiðarleika í viðskiptum en það virtist ekki draga úr stuðningi við hann. Nokkrum dögum áður en kjósendur gengu að kjörborðinu samþykkti þing landsins að óháð rannsóknarnefnd yrði skipuð til að fara í saumana á hlutabréfaviðskiptum Lees og kanna hvort eitthvað gruggugt hafi átt sér þar stað. Þeirri rannsókn á að vera lokið fyrir lok febrúar þegar Lee tekur við embætti.

Í kosningabaráttunni voru það efnahagsmál sem réðu mestu í umræðunni en ekki ógnin úr norðri og samskiptin við Norður-Kóreu líkt og oft áður. Lee hét því að laða erlenda fjárfesta að landinu og fjölga þar með störfum.

Hann hefur þó ekki leitt Norður-Kóreu og kjarnorkuáætlanir þeirra hjá sér. Hann ætlar sér að taka á ráðamönnum í Pyongjang af hörku og óttast margir að nú eigi eftir að frysta eftir nokkra þýðu í samskiptum ríkjanna síðustu misserin.

Á blaðamannafundi í morgun sagði Lee að fyrri stjórnir hefðu verið ragar við að gagnrýna Norður-Kóreumenn og reynt einhliða að friðþægja þá. Því ætli hann að breyta. Ekkert verði af fullu samstarfi á sviði efnahagsmála nema kjarnorkuáætlun Norður-Kóreumanna verði að fullu og öllu lögð á hilluna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×