Erlent

Þorskstofninn í Kattegat í útrýmingarhættu

Þorskstofninn í Kattegat á milli Jótlands og Svíþjóðar er í útrýmingarhættu, samvæmt nýrri rannsókn sem Dagens Nyheter greinir frá.

Þar er haft eftir hafrannsóknastofnuninni í Lysekil í Svíþjóð að ástand stofnsins hafi aldrei verið verra. Í rannsóknaleiðangri hafi ekkert fundist af seiðum úr klaki þessa árs og engin eldri fiskur en tveggja ára.

Til samanburðar er ekki farið að veiða þorsk hér við land fyrr en hann er orðinn þriggja til fjögurra ára þannig að það litla sem finnst í Kattegat er undirmálsfiskur eða þyrsklingur. Stofnunin kennir langvarandi ofveiði um ástandið.

Mikil hefð er fyrir þorskneyslu í Noregi, Svíþjóð og Danmörku, ekki síst um jólin, og telur markaðssérfræðingur í fisksölumálum hér á landi hætt við að þær hefðir fari að leggjast af og annar fiskur komi staðinn, eða einhver allt önnur matvara. Þessi staða liðki ekki fyrir sölu á íslenskum þroski því nú þegar anni íslensku fisksölufyrirtækin ekki eftirspurn eftir honum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×