Erlent

Tyrkir gera árás á kúrdísk þorp

Tyrkneskar orrustuþotur réðust á kúrdísk þorp í norðurhluta Íraks í morgun. Að minnsta kosti einn lét lífið og tveir særðust.

Þorpin liggja um 100 kílómetra frá tyrknesku landamærunum en fjöldi húsa eyðilagðist í árásinni og einn skóli. Er þetta í fyrsta skipti sem tyrkneski herinn beitir orrustuþotum í árásum á skæruliða kúrda í Írak. Alls voru gerðar loftárásir á tíu þorp en eftir að þeim lauk hófu stórskotaliðssveitir árásir á stöðvar skæruliða á nálægum svæðum.

Tyrkneski herinn hefur haldið uppi árásum á skærulið kúrda í Írak síðan tyrkneska þingið veitti hernum leyfi til innrásar í síðastliðinum októbermánuði. Var það gert til að bregðast við skæruliðaárásum kúrda yfir landamæri ríkjanna.

Hingað til hefur tyrkneski herinn haldið sig við svæðisbundnar árásir og ekki hefur komið til allsherjarinnrásar inn í Norður-Írak. Um eitt hundrað þúsund tyrkneskir hermenn eru þó í viðbragðsstöðu við landamærin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×