Erlent

Hershöfðingi í her Líbana ráðinn af dögum

Frá vettvangi tilræðisins í morgun.
Frá vettvangi tilræðisins í morgun. MYND/AP

Háttsettur maður í líbanska hernum var ráðinn af dögum í sprengjutilræði í bænum Baabda í útjaðri Beirút í morgun.

Talið er að hershöfðinginn Francois al-Hajj hafi verið á leið heiman frá sér til vinnu og að sprengja hafi sprungið nálægt bíl hans þegar hann átti leið um Baabda.

Al-Hajj hafði stjórnað aðgerðum líbanska hersins í baráttu við íslamska uppreisnarmenn í Nahr- al-Bared flóttamannabúðunum fyrr á árinu og talið var líklegt að hann yrði æðsti yfirmaður hersins ef Michel Suleiman hershöfðingi yrði gerður að forseta.

Stjórnarkreppa er í Líbanon og hefur kjöri forseta landsins ítrekað verið frestað vegna þess að meirihlutinn á þingi, sem er hallur undir Vesturlönd, og stjórnarandstaðan, sem hefur tengsl við stjórnvöld í Sýrlandi, geta ekki komið sér saman um nýja ríkisstjórn.

Þrír aðrir létust í tilræðinu í morgun en enginn hefur lýst yfir ábyrgð á því. Fjölmargir háttsettir menn hafa verið drepnir í tilræðum í Líbanon á undanförnum misserum, en flestir þeirra hafa andæft afskiptum Sýrlandsstjórnar af innanríkismálum í Líbanon.

Talsmaður Bandaríkjaforseta fordæmdi tilræðið í morgun og sagði að Bush myndi áfram styðja líbönsku þjóðina í baráttuna við þá sem reyndu að grafa undan öryggi og frelsi í landinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×