Erlent

Bush gagnrýnir Sádi-Araba vegna nauðgunardóms

MYND/AP

George Bush Bandaríkjaforseti gagnrýndi í fyrsta sinn í gær stjórnvöld í Sádi-Arabíu vegna dóms yfir 19 ára gamalli stúlku sem nauðgað var á dögunum.

Stúlkan var dæmd til hálfs árs fangelsisvistar og 200 vandarhagga vegna þess að hún var ein í bíl með karlmanni sem ekki var ættingi hennar þegar henni var nauðgað.

Demókratar hafa þrýst á Bandaríkjastjórn að bregðast við dómnum sem vakið hefur mikla reiði í Bandaríkjunum. „Ef þetta hefði verið dóttir mín hefði ég reiðst árásarmönnunum og ríkinu sem ekki studdi við fórnarlambið," sagði Bush á blaðamannafundi í gær. Bush sagðist hins vegar ekki muna hvort hann hefði rætt málið við Abdulla, konung Sádi-Arabíu, þegar þeir töluðu saman í síma í nóvember.

Bandaríkjamenn og Sádi-Arabar eru nánir bandamenn, meðal annars vegna olíumála, og leitt hefur verið líkum að því að þess vegna hafi Bush ekki viljað ræða um málið fyrr.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×