Erlent

Mikill viðbúnaður í París vegna hugsanlegra óeirða

Lögreglumenn gráir fyrir járnum í Villiers-le-Bel í kvöld.
Lögreglumenn gráir fyrir járnum í Villiers-le-Bel í kvöld. MYND/AP

Lögreglan í París verður með mikinn viðbúnað í kvöld þar sem óttast er að til óeirða komi í einu af úthverfum borgarinnar þriðja kvöldið í röð. Forsætisráðherrann Francois Fillon hefur kallað ungmennin sem staðið hafa fyrir óeirðunum glæpamenn.

Um áttatíu lögrglumenn meiddust í óeirðum í hverfinu Villiers-le-Bel í París í gærkvöld og nótt og þá kveiktu ungmennin í fjölmörgum bílum. Segir lögregla að ungmennin hafi notað byssur, grjót og bensínsprengjur gegn lögreglunni en hún svaraði með táragasi og gúmmíkúlum.

Fregnir hafa borist af því að óeirðirnar séu að breiðast út til annarra borga Frakklands og þannig var kveikt í bókasafni í borginni Toulouse í kvöld.

Óeirðirnar má rekja til dauða tveggja ungra manna en þeir léstust í árekstri mótorhjóls og lögreglubíls. Saka ungmennin og ættingjar drengjanna lögregluna um að hafa keyrt inn í mótorhjólið en því hefur lögreglan hafnað og segir piltana hafa verið á óskráðu hjóli á miklum hraða og án hjálma.

Francois Fillon, forsætisráðherra Frakklands, heimsótti Villiers-le-Bel í dag og þakkaði lögreglu fyrir störfin. ,,Þeir sem skjóta á lögregluna eru glæpamenn og tekið verður á þeim sem slíkum," sagði Fillon.

Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands, hefur boðað til neyðarfundar hjá ríkisstjórninni á morgun vegna málsins en þá snýr hann aftur úr heimsókn til Kína.

Óeirðirnar nú þykja minna á uppþot sem urðu í hverfinu Clichy-sous-Bois árið 2005. Þau urðu í kjölfar þess að tveir piltar létust á flótta undan lögreglu. Stóðu óreirðirnar þá í þrjár vikur. Yfir 10 þúsund bílar voru brenndir og um 300 byggingar skemmdust í árásum með bensínsprengjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×