Erlent

Bæði Ísraelar og Palestínumenn verða að slá af kröfum sínum

Bush Bandaríkjaforseti sagði Ísraelum og Palestínumönnum í gærkvöldi að báðir yrðu að slá af kröfum sínum til að ná samkomulagi um frið fyrir botni Miðjarðarhafs.

Samningamenn fimmtíu ríkja eru komnir til Annapolis í Bandaríkjunum þar sem ráðstefna um frið milli Ísraela og nágranna þeirra hefst í dag. Í gærkvöldi var talast við í hverju horni hótelanna þar sem sendinefndirnar gista. Sádi-Arabar og Sýrlendingar ákváðu á síðustu stundu að taka þátt í viðræðunum.

Við kvöldverðarboð í Hvíta húsinu í gærkvöldi lagði Bush Bandaríkjaforseti áherslu á tveggja ríkja lausnina svokölluðu sem byggist á því að stofnað verði ríki Palestínumanna við hlið Ísraelsríkis.

Sýrlendingar féllust á að koma til Annapolis með því skilyrði að einnig yrði rætt um Golan-hæðirnar sem Ísraelar tóku af þeim í sex daga stríðinu 1967.

Mikið hefur verið rætt um hversu mikið Bush forseti ætlar að skipta sér af viðræðunum. Hann hefur hingað til ekki sýnt nokkurn áhuga á að beita sér persónulega og hefur gagnrýnt Clinton forvera sinn fyrir að hafa eytt of miklum tíma í málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×