Erlent

Ungir Danir heillast af íslamstrú

MYND/AFP

Unglingar í Danmörku tilheyra þeim hópi sem er hvað móttækilegastur fyrir íslamstrú þar í landi samkvæmt nýrri rannsókn. Þriðjungur þeirra sem snýst til íslamstrúar í Danmörku eru á aldrinum fjórtán til nítján ára.

Rannsóknin er birt í bókinni "Nýir Múslimar í Danmörku" sem kemur út í næsta mánuði. Byggir rannsóknin meðal annars á spurningarlista sem lagður var fyrir hundrað og sjötíu og átta einstaklinga sem eiga það sameiginlegt að hafa snúist til íslamstrúar.

Þar kemur fram að það eru einkum ungir Danir sem virðast snúast til íslamstrúar. Um þriðjungur þeirra gerir það á aldrinum fjórtán til nítján ára og um áttatíu prósent áður en þeir verða þrjátíu ára.

Það sem helst virðist höfða til hinna ungu Dana eru hinar ströngu siðareglur íslam. Á síðustu tveimur árum hafa á bilinu tvö til fjögur þúsund Danir snúist til íslamstrúar. Lengi vel voru konur í meirihluta en á síðustu árum eru það einkum karlmenn sem hafa látið snúast.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×