Erlent

Tímamótabreyting á stjórnarskrá Zimbabwe

Robert Mugabe hefur verið við völd í landinu frá árinu 1980 þegar Rhodesía varð að Zimbabwe.
Robert Mugabe hefur verið við völd í landinu frá árinu 1980 þegar Rhodesía varð að Zimbabwe. MYND/AFP

Stærsti stjórnarandstöðuflokkur Zimbabwe segir að náðst hafi samkomulag við ríkisstjórnina um lagabreytingu á stjórnarskránni. Um er að ræða tímamótabreytingu sem kemur flestum mjög á óvart. Breytingarnar munu gera sameiginlegt framboð til þing- og forsetakosninga mögulegar árið 2008. Þær munu meðal annars leiða af sér fjölgun þingmanna.

Á fréttavef BBC segir að málamiðlunarnefnd á vegum Suður-Afríku hafi stuðlað að því að samkomulagið náðist.

Í nýlegri skýrslu alþjóðlegrar nefndar um neyðaraðstoð er kallað eftir aðstoð alþjóðasamfélagsins til að rétta efnahagsástand landsins við. Hún segir landið á barmi efnahagslegs hruns, en verðbólga var rúmlega sex þúsund prósent í ágúst og atvinnuleysi gríðarlegt.

Ekki er líklegt að Vestræn ríki nái árangri þar sem viðskiptaþvinganir þeirra hafa þjónað þeim eina tilgangi að vera táknrænar. Þá hefur fordæming Breta og Bandaríkjamanna síður en svo bætt efnahagsástandið í landinu.

Lönd í suðurhluta Afríku og Alþjóðleg nefnd um neyðaraðstoð eru einu aðilarnir sem eiga möguleika á að leggja landinu lið í þessum efnum.

Talið er að fjórir af hverjum fimm íbúum Zimbabwe búi undir fátækramörkum og að 25 prósent íbúa hafi flúið land.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×