Erlent

Fengu reykháf í hausinn

Íbúar í Berlín áður en ósköpin dundu yfir.
Íbúar í Berlín áður en ósköpin dundu yfir. MYND/AP

Það fór heldur illa þegar fella átti þrjá stóra reykháfa í bænum Berlín í New Hampshire í Bandaríkjunum í gær. Þúsundir manna höfðu safnast saman til þess að horfa á þessi hæstu mannvirki bæjarins falla til jarðar.

Fyrstu tveir háfarnir féllu eftir að þeir voru sprengdir niður en erfiðlega gekk að ná þeim þriðja. Það tókst þó að lokum en ekki með betri árangri en svo að partar úr honum skutust í áhorfendur þrátt fyrir að þeim hefði verið haldið í hæfilegri fjarlægð.

Flytja þurfti sjö manns á sjúkrahús til aðhlynningar en enginn mun hafa meiðst alvarlega. Lögreglan á svæðinu segir að ekki verði gefnar út ákærur í málinu en býst hins vegar við að einhverjir leiti réttar síns í einkamálum á hendur eigendum svæðisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×