Erlent

Reinfeldt gagnrýnir hótanir vegna Múhameðsmynda

Fredrik Reinfeldt, forsætisráðherra Svíþjóðar, gagnrýndi í dag líflátshótanir al-Qaida á hendur sænska teiknaranum Lars Vilks. Eftir því sem sænska ríkisútvarpið greinir frá sagði Reinfeldt að taka yrði hótanirnar alvarlega.

Hann benti enn fremur á menn töluðu ætíð um að verja málfrelsið en menn yrðu líka að tala saman og bera virðingu hver fyrir öðrum. Reinfeldt átti í dag fundi með leiðtogum múslíma í Svíþjóð sem einnig hafa fordæmt hótanirnar. Reinfeldt hafði verið gagnrýndur fyrir að tjá sig ekki strax um málið, meðal annars af Lars Vilks sjálfum og Piu Kjærsgaard, formanni danska Þjóðarflokksins.

Eins og fram hefur komið í fréttum setti leiðtogi al-Qaida hóps í Írak fé til höfuðs Vilks vegna teikninga hans af Múhameð spámanni í hundslíki og þá var einnig sett fé til höfuðs ritstjóra Nerikes Allehanda fyrir að birta myndirnar. Lögregla gætir nú beggja þar sem leyniþjónusta Svíþjóðar telur hótanirnar trúverðugar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×