Erlent

Frakkar verði reiðubúnir í stríð við Írana

Bernard Kouchner, utanríkisráðherra Frakka, var harðorður í garð Írana í dag.
Bernard Kouchner, utanríkisráðherra Frakka, var harðorður í garð Írana í dag. MYND/AP

Bernard Kouchner, utanríkisráðherra Frakklands, sagði í dag að Frakkar yrðu að vera reiðubúnir að fara í stríð við Írana vegna kjarnorkuáætlana landsins. Hann taldi þó ekki að stríð væri yfirvofandi.

Kouchner var í viðtali á frösku útvarpsstöðinni RTL þar sem deilan Vesturveldanna við Írana bar á góma. Þar sagði Kouchner að ríki heims ættu að beita frekari refsiaðgerðum á hendur Írönum til þess að sýna þeim að þeim væri alvara í því að stöðva Írana í framleiðslu kjarnorkuvopna. „Við verðum að búa okkur undir það versta og það versta er stríð," sagði Kouchner.

Hann var spurður að því hvort Frakkar kæmu nú þegar að undirbúningi slíks en svaraði því neitandi. Íranar hafa enn ekki orðið við kröfum Sameinuðu þjóðanna um að þeir hætti auðgun úrans en þeir segjast eingöngu auðga úran í tengslum við orkuframleiðslu.

Kveðið hefur verið við hvassari tón hjá Frökkum í málinu að undanförnu en oft áður. Þannig sagði Nicholas Sarkozy, forseti Frakklands, í síðasta mánuði að einu kostirnir fyrir utan samningaleiðina væru „írönsk sprengja eða sprengjuárásir á Íran".




Fleiri fréttir

Sjá meira


×