Erlent

Talið að skógareldar felli grísku ríkisstjórnina

George Papandreou var kampakátur á kjörstað í Þessalóníku í dag.
George Papandreou var kampakátur á kjörstað í Þessalóníku í dag. MYND/AP

Grikkir ganga að kjörborðinu í dag og kjósa þing - hálfu ári fyrr en áætlað var. Talið er að skógareldarnir í síðasta mánuði komi í veg fyrir að ríkisstjórn landsins haldi velli.

Costas Karamanlis, forsætisráðherra og leiðtogi Nýja lýðræðisflokks íhaldsmanna, komst að þeirri niðurstöðu fyrr á þessu ári að betri líkur væru á því að mið- og hægristjórn hans héldi velli í snemmbúnum kosningum. Þar fengi hann umboð til umbóta í efnahagsmálum sem mun ekki vanþörf á.

Verðbólga í Grikklandi nú er mun meiri en leyfilegt er á evrusvæðinu. Fyrirfram var talið að Karamanlis og bandalag hans ynni stórsigur en síðan boðað var til kosninga hafa hneykslismál og mannskæðir skógareldar í síðasta mánuði valdið honum erfiðleikum. Kjósendur segja ríkisstjórnina hafa brugðist hægt og illa við eldunum sem urðu sextíu og fimm manns hið minnsta að bana. Talið er að margir kjósendur vilji refsa fyrir það og halli sér þar með að sósíalistum undir forystu George Papandreou. Faðir hans, Andreas Papandreou var forsætisráðherra á sínum tíma og líka afi hans George.

Kannanir benda til að hvorugur flokkurinn fái hreinan meirihluta í kosningunum og þurfi því að treysta á minni flokka stjórnmálaskýrendur segja erfitt að spá um hvert þeir snúi sér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×