Erlent

50 vígamenn láta lífið í Írak

Herþyrla Bandaríkjamanna sést hér skjóta eldflaugum á hverfið þar sem átökin hafa verið undanfarna daga.
Herþyrla Bandaríkjamanna sést hér skjóta eldflaugum á hverfið þar sem átökin hafa verið undanfarna daga. MYND/AP

Íraskar hersveitir, með stuðningi bandarískra hersveita, bönuðu í dag allt að 50 manns við Haifa götuna í miðborg Bagdad. Bardagar hafa geisað þar í grennd í um fjóra daga. Íraskir embættismenn segja að allt að því 130 manns hafi látið lífið í átökunum síðan á laugardaginn var.

Talsmenn þarlendra stjórnvalda segja ennfremur að á svæðinu mori allt í vígamönnum súnní múslima. Á laugardaginn tilkynnti Nuri al-Maliki, forsætisráðherra Íraks um hertar aðgerðir gegn öfgamönnum í Bagdad og hófst ofbeldið fljótlega eftir það. Búist er við því að George W. Bush, forseti Bandaríkjanna, eigi eftir að tilkynna í kvöld að hann ætli sér að senda 20 þúsund hermenn til Íraks og samkvæmt sumum heimildum gæti það gerst fyrir mánaðarlok. Þingið er þó ekki á því að samþykkja svo mikla aukningu og hefur einn öldungadeildarþingmaður demókrata, Edward Kennedy, þegar lagt til að aukningin í herliði Bandaríkjanna í Írak verði ekki samþykkt.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×