Íslenski boltinn

Tryggvi: Var að losna í bikarskápnum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Tryggvi Guðmundsson gæti fengið að halda á bikarnum aftur á morgun.
Tryggvi Guðmundsson gæti fengið að halda á bikarnum aftur á morgun. Mynd/E. Stefán

Tryggvi Guðmundsson, leikmaður FH, á ekki von á því að sínir menn rúlli yfir Fjölnismenn í bikarúrslitaleiknum á morgun.

„Nei, ég á ekki von á því. Fjölnismenn eru komnir í úrslitaleikinn og það segir okkur að þeir eru með mjög gott fótboltalið. Þeir unnu til að mynda Fylkismenn í undanúrslitum mjög sannfærandi en við höfum ekki alltaf riðið feitum hesti frá viðureignum okkar við Fylki,“ sagði Tryggvi.

„Þetta verður 50/50 leikur þó að það sé deildarmunur á liðunum. Auk þess tel ég að allir muni koma til með að halda með Fjölni eins og gerist alltaf þegar hið svokallaða litla lið kemst svona langt.“

Hann neitar því ekki að liðsfélagar sínir voru ekkert sérstaklega vel stemmdir eftir að liðið missti af Íslandsmeistaratitlinum síðastliðna helgi.

„Við tókum helgina í að jafna okkur en svo byrjaði ný vika og undirbúningur fyrir þennan leik. Það var einmitt að losna pláss í bikarskápnum í Kaplakrika og við ætlum okkur að fylla það,“ sagði hann í léttum dúr.

Tryggvi hefur áður orðið bikarmeistari en hvorki FH né Fjölnir hefur afrekað það áður. Það var með KR árið 1994 en auk þess lék hann til úrslita í keppninni árin 1996 og 1997 með ÍBV en tapaði í bæði skiptin.

„Ég vil auðvitað laga þetta hlutfall. Við munum mæta í þennan leik eins og alla aðra. Við spilum okkar bolta og reynum að sækja á þá. Fjölnir er líka sókndjarft lið og þetta gæti því orðið mjög skemmtilegur og opinn leikur. Svo veit maður aldrei hvernig stressið mun fara með mannskapinn.“ 


Tengdar fréttir

Vísir hitar upp fyrir bikarúrslitin

Á laugardaginn mætast lið FH og Fjölnir í bikarúrslitaleik karla. Vísir mun næstu daga fjalla ítarlega um leikinn.

Ásmundur: Alltaf möguleiki

Ásmundur Arnarsson, þjálfari Fjölnis, segir að sínir menn þurfi að ná sínum besta leik til að eiga möguleika gegn FH-ingum í bikarúrslitaleiknum á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×