Erlent

Hundruð þúsund flýja eldana í Kaliforníu

Tvö hundruð og fimmtíu þúsund manns hafa þurft að flýja heimili sín í Kaliforníu vegna mikilla skógarelda, einkum í suðurhluta fylkisins. Að minnsta kosti þrettán skógareldar í sunnanverðu Kaliforníufylki hafa eyðilagt sjö hundruð heimili, valdið dauða eins manns og skaðað á fjórða tug manna.

Eldarnir breiðast út með miklum hraða í kjöraðstæðum. Þarna er heitt og þurrt og hinn svokallaði Santa Ana vindur blæs í glæðurnar. Það er fön-vindur eða hnúkaþeyr sem kemur neðan úr Klettafjöllum og fýkur með miklum hraða yfir láglendið suður af Los Angeles, einkum á þessum tíma árs.

Skæðasti skógareldurinn er í grennd við San Diego og hefur grandað fimm hundruð einbýlishúsum og eitt hundrað öðrum byggingum. Um tíu þúsund manns sem flúðu heimili sín í San Diego sýslu gista nú á leikvelli San Diego Chargers ruðningsliðsins.

Meðal þeirra sem þurftu að flýja hús sín á San Diego svæðinu var Jóna Kristbjörg Valdez, maður hennar og þrjú börn. Í Fréttablaðinu kemur fram að þau hafi fengið boð um að rýma húsið og hafi tíu mínútum síðar verið komin í bíl sinn á leið til Los Angeles.

Schwarzenegger fylkisstjóri Kaliforníu hefur farið um hamfarasvæðin til að skoða aðstæður og hughreysta fólk. Vonast er til að Santa Ana vindinn lægi í dag og þá verði auðveldara að ráða niðurlögum eldanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×