Erlent

140 uppreisnarmenn fallnir

Meira en hundrað og fjörutíu uppreisnarmenn hafa fallið í árásum írakskra og bandarískra hersveita á borgina Tal Anfar í Írak. Hersveitirnar ætla á næstunni að gera skipulagt áhlaup á vígi uppreisnarmanna í fjórum borgum í viðbót. Aðgerðirnar eru einhverjar þær víðtækustu síðan ráðist var inn í Írak árið 2003. Í gærkvöldi hófu írakskar og bandarískar hersveitir skipulagðar árásir í borginni Tal Afar í norðurhluta Íraks. Hermenn gengu í nótt hús úr húsi og kembdu götur í leit sinni að uppreisnarmönnum. Byssugelt heyrðist víða um borgina sem hefur verið gróðrastía sýrlenskra uppreisnarmanna sem hafa smyglað sér yfir landamærin til Íraks. Undanfarna tvo daga hafa hersveitir drepið meira en hundrað og fjörutíu uppreisnarmenn og handtekið nærri tvö hundruð til viðbótar. Flestir þeirra eru arabar frá öðrum löndum en Írak. Aðgerðirnar í Tal Afar eru einhverjar þær stærstu síðan bandarískar hersveitir réðust inn í borgina Fallujah fyrir um ári síðan. Allir tvö hundruð þúsund íbúar borgarinnar hafa verið hvattir til að yfirgefa hana og flestir hafa þegar hlýtt því kalli. Í morgun sagði svo varnarmálaráðherra Íraks að næst yrði ráðist inn í borgirnar Ramadi, Samarra, Rawa og Kaím sem einnig hafa verið mikið vígi uppreisnarmanna frá nágrannalöndum Íraks. Ráðherrann sagði að skæruliðar myndu hvergi finna skjól og aðgerðirnar myndu taka skemmri tíma en fólk gerði ráð fyrir. Uppreisnarmenn yrðu annað hvort að gefast upp, eða gjalda með lífi sínu.  


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×