Erlent

Makbeð fái uppreisn æru

Makbeð Skotakonungur var alls ekki sá illvirki sem William Shakespeare lýsti í leikriti sínu og það er tími til kominn að hann fái að njóta sannmælis segir í þingsályktunartillögu sem tuttugu þingmenn á skoska þinginu hafa lagt fram. Þar leggja þeir til að árið sem nú er hafið verði kennt við Makbeð og að ímynd hans verði bætt að því er The Times greinir frá. "Makbeð hefur hlotið slæma umfjöllun vegna aðkomu Shakespeare. Hann var að öllum líkindum góður konungur og ætti að fá sakaruppgjöf," hefur The Times eftir Alex Johnstone, einum þingmannanna sem vilja veita Makbeð uppreisn æru. Fyrirmyndin að Makbeð í leikriti Shakespeare er skoskur konungur sem fæddist árið 1005 og ríkti frá 1040 til 1057. Hann mun þó hafa átt lítið sameiginlegt með Makbeð leikritsins. Í leikritinu myrðir Makbeð hinn aldna, góðviljaða Duncan til að komast til valda en í raunveruleikanum lést hinn ungi konungur Duncan í orustu þar sem Makbeð kann þó að hafa átt hlut í máli. Makbeð tók við konungsdæminu þar sem sonur Duncan var of ungur til að gegna embættinu og er sagður hafa komið á lögum og reglu í landi sem laut engum lögum auk þess að hafa eflt kristni í ríki sínu.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×