Erlent

Skuggi Íraks vofir yfir

Landsþing breska Verkamannaflokksins stendur nú sem hæst. Leiðtogar flokksins reyna hvað þeir geta til að beina athyglinni að árangri sínum heima fyrir en þingfulltrúar vilja heldur ræða um ástandið í Írak. Landsþingið fer fram í Brighton og ávarpaði Gordon Brown, fjármálaráðherra, samkomuna í gær. Brown lagði áherslu á árangur í efnahagsmálum og hvatti menn til að horfa til framtíðar í stað þess að festast í því sem liðið er. Ólíkt því sem búist var við lét Brown það vera að skjóta á Tony Blair, forsætisráðherra, en samband þeirra hefur snarkólnað undanfarin misseri. Fyrr í mánuðinum fékk Blair Alan Milburn, fyrrverandi ráðherra, til að semja stefnuskrá flokksins fyrir kosningarnar sem boðað verður til á næsta ári, en það verk hefur verið í höndum Browns í tvennum síðustu kosningum. Blair heldur ræðu sína síðar í dag og mun að líkindum reyna að sneiða hjá ástandinu í Írak eins og frekast er kostur. Landsfundarfulltrúar náðu hins vegar að knýja fram að atkvæðagreiðsla verði haldin um þátttöku Breta í hernámi landsins. Meint gerðeyðingarvopn Íraka eru með öllu ófundin og til að bæta gráu ofan á svart eru afdrif breska gíslsins, Kenneth Bigley, enn á huldu. Allar líkur eru því á að Írak verði Tony Blair áfram fjötur um fót.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×