Erlent

Ekki vitað um afdrif Bigleys

Ekki er vitað hvort Bretinn Kenneth Bigley, sem hefur verið í haldi mannræningja í Írak, er lífs eða liðinn en mannræningjarnir hafa hótað að drepa hann. Öldruð móðir Bigleys bað honum griða í sjónvarpi í gærkvöldi og féll að því loknu saman.  Móðir Kenneths Bigleys, Lil Bigley, kom fram í sjónvarpi í gær og grátbað hvern sem er að hjálpa syni sínum. Hún sagði hann „bara“ verkamann sem vildi vinna fyrir fjölskyldu sinni. Lil er áttatíu og sex ára og taugaspennan reyndist henni um megn. Skömmu eftir ávarpið var hún flutt á sjúkrahús í Liverpool en send heim í dag. Ekkert er vitað hvort Bigley er lífs eða liðinn en mannræningjarnir hafa ekki látið neitt frá sér heyra. Þeir krefjast þess að kvenföngum í fangelsum í Írak verði sleppt en þvertekið hefur verið fyrir að við kröfu þeirra verði orðið. Sex Egyptum hefur verið rænt í Írak, að sögn í aðskildum mannránum. Allir starfa þeir fyrir Iraqyna Mobile Net, farsímafyrirtæki Íraks. Hundrað og þrjátíu útlendingum hefur verið rænt í Írak í undanförnum misserum og ekki færri en tuttugu og sjö hafa verið drepnir. Ástandið í Írak er nú með þeim hætti að rætt er um að fresta fyrirhuguðum kosningum í janúar eða kjósa einungis í þeim hlutum landsins þar sem ástandið er talið nógu stöðugt til að hægt sé að halda kosningar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×