Erlent

Eldflaugum skotið að þinghúsinu

Sjö eldflaugum var skotið að þinghúsinu í Bagdad í morgun en þar var fyrsti þingfundur haldinn eftir að Írakar tóku aftur við stjórn landsins. Uppreisnarmenn skutu fyrst fimm eldflaugum að hinu svokallaða Græna svæði í miðborg Bagdads í morgun, rétt áður en þingfundur átti að hefjast. Græna svæðið er vel víggirt og sér bandaríski herinn um hervernd því þar er að finna helstu stjórnarbyggingar landsins og höfuðstöðvar bandaríska hersins í Írak. Eftir að þing var sett var tveimur öðrum eldflaugum skotið að svæðinu og er talið að þeim hafi verið beint að þinghúsinu. Betur fór en á horfðist því einungis einn maður særðist í árásunum. Það þykir hins vegar áhyggjuefni að uppreisnarmenn skuli komast svo nálægt hinu verndaða svæði. Sprengingarnar heyrðust vel inni í þinghúsinu og mörgum þingmönnum var brugðið en þeir eru um hundrað talsins. Apache-herþyrlur voru samstundis sendar í loftið og hringsóluðu lengi vel yfir borginni í leit að uppreisnarmönnunum. Þegar um þrettán hundruð írakskir fulltrúar hittust til að velja þingmennina fyrir rúmum mánuði tókst árásarmönnum einnig að skjóta tveimur eldflaugum nálægt fundarstaðnum og létust tveir óbreyttir borgarar. Vígamenn gerðu svo skotárás á bílalest háttsetts sjíta í Najaf í morgun og særðust tveir. Íröksk stjórnvöld reyna nú að leita ráða til þess að tryggja betur öryggi stjórnmálamanna í landinu en fjölmargir háttsettir stjórnmálamenn hafa látið í lífið í árásum síðustu mánuði. Á myndinni sést írakska lögreglan girða af svæði nærri þinghúsinu í Bagdad í kjölfar sprenginganna í morgun.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×