Erlent

Friðarumleitanir út um þúfur

Harðir bardagar geisa í hinni helgu borg Najaf. Friðarumleitanir fóru út um þúfur þegar klerkurinn Muqtada al-Sadr neitaði að hitta friðarsendinefnd í gær. Varnarmálaráðherra Íraks hótar harkalegum viðbrögðum, gefist uppreisnarmenn í borginni ekki upp innan nokkurra stunda. Þó að miðpunktur uppreisnar eða andspyrnu stuðningsmanna Muqtada al-Sadrs sé í Najaf eru harðlínusjítar víðar í suðurhluta Íraks farnir að láta til sín taka. Breskur hermaður féll og annar særðist í átökum við írakskar skæruliðasveitir skammt frá Basra í gær. Talið er að skæruliðarnir þar séu hliðhollir al-Sadr. Í Bagdad hefur einnig komið til átaka, og í morgun var enn á ný varpað sprengjum að fundarstað þjóðarráðs Íraks sem skipa á nýtt þing. Fulltrúar á fundi þjóðarráðsins vilja að stillt verð til friðar í Najaf en al-Sadr neitaði að eiga fund með sendinefnd ráðsins í gær. Fundir ráðsins og skipun þings hefur frestast vegna deilna um framgang mála þar. Varnarmálaráðherra Íraks lýsti því yfir fyrr í morgun að skæruliðar al-Sadrs hefðu nokkurra klukkustunda frest til þess að leggja niður vopn og gefast upp. Öðrum kosti mættu þeir eiga von á ærlegri ráðningu sem þeir myndu aldrei gleyma. Ráðherrann segir að hersveitir yfirvalda og Bandaríkjahers séu reiðubúnar að láta til skarar skríða gegn skæruliðasveitunum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×