Erlent

Árásir við upphaf þings

Árásir og mannfall mörkuðu upphaf funda írakskra fulltrúa sem velja eiga nýtt þing. Þrátt fyrir friðarumleitanir halda bardagar áfram í Najaf og í Fallujah voru enn á ný gerðar loftárásir. Þrettán hundruð fulltrúar víðsvegar að í Írak komu í morgun saman til að ráða ráðum sínum og skipa þing. Tilgangur þessa var ekki síst að gefa fulltrúum ólíkra hópa tækifæri á að viðra skoðanir sínar og hafa áhrif á lýðræðislegan gang mála í landinu. Greinilegt var að allir vildu láta í sér heyra. Gríðarleg öryggisgæsla var á fundarstaðnum og um svipað leyti og fundurinn hófst var gerð sprengjuárás skammt frá. Adnan Saleh, lögreglustjóri í Bagdad, segir eldflaug hafa lent á smárútu og kveikt í henni. Lögregluforingi, eiginkona hans og bróðir, sem í bílnum voru, létust öll. Sautján særðust í árásinni. Bardagar hófust enn á ný í helgu borginni Najaf í morgun eftir að friðarumleitanir runnu út í sandinn. Mehdi-sveitir harðlínuklerksins Muqtada al-Sadrs heita því að berjast til síðasta manns og þúsundir stuðningsmanna Sadrs streyma til borgarinnar til að fórna sér þar sem mannlegir skildir. Lögreglustjórinn í borginni hefur vísað fréttamönnum úr borginni af ótta við að þeir verði skotmörk hryðjuverkamanna. Fréttamaður AP í borginni segir lögreglumenn hafa skotið á hótel sem fréttamenn dvöldu í til að undirstrika skilaboðin. Í Fallujah gerðu bandarískar orustuflugvélar árásir á nokkurn fjölda skotmarka en undanfarna daga hafa borist fregnir af aukinni mótspyrnu þar. Íbúar segja fjölda fólks, þar á meðal börn, hafa særst í árásunum í dag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×