Erlent

Bardagar byrjaðir í Najaf

Einn fórst og fimm særðust í sprengjuárás í Írak í morgun. Harðir bardagar eru á ný hafnir í borginni Najaf eftir að friðarviðræður fóru út um þúfur. Í morgun komu þrettán hundruð fulltrúar saman á fundi í Bagdad til að velja þing sem hafa á eftirlit með starfi bráðabirgðastjórnar Íraks fram að frjálsum kosningum á næsta ári. Nokkrar sprengingar heyrðust skammt frá fundarstaðnum í morgun en talsmenn stjórnvalda segja þremur sprengjum hafa verið varpað á strætisvagna- og leigubílabiðstöð skammt frá fundarstaðnum. Einn fórst og fimm særðust í árásinni en ekki er vitað hverjir stóðu fyrir henni. Lögreglu og og byssumönnum lenti einnig saman annars staðar í Bagdad. Í helgu borginni Najaf halda harðir bardagar áfram en friðarviðræður stjórnvalda við fulltrúa harðlínuklerksins Muqtada al-Sadrs báru engan árangur. Skæruliðasveitir Sadrs, Mehdi-herinn, sendi andstæðingum sínum skilaboð í morgun þegar lík lögreglumanns fannst illa leikið á fjölförnum stað í Najaf. Maðurinn hafði verið drepinn og augun kroppuð úr tóftunum. Sprengingar heyrast nú í borginni en bandarískar og írakskar sveitir herja nú á Mehdi-herinn. Hollenskur hermaður féll í átökum í bænum Ar Rymaythah í gær og fimm særðust alvarlega í skotárás þar. Hollensk stjórnvöld lýstu því yfir í morgun að atburðurinn myndi ekki breyta stefnunni í Írak og að hersveitir yrðu ekki kallaðar heim þaðan. Myndin er tekin í Najaf í morgun og sýnir bandaríska hermenn reyna að skýla eyrum sínum þegar sprengingar kveða við í borginni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×