Erlent

Sam­komu­lagið veiti Banda­ríkjunum að­gang að auð­lindum Græn­lands

Eiður Þór Árnason og Rafn Ágúst Ragnarsson skrifa
Trump í Davos í kvöld.
Trump í Davos í kvöld. AP/Markus Schreiber

Drög að samkomulagi Bandaríkjastjórnar við Atlantshafsbandalagið veitir Bandaríkjunum og bandalagsþjóðum í Evrópu aðgang að réttindum til jarðefnavinnslu í Grænlandi. Þá munu ríki vinna saman að þróun svokallaðrar Gullhvelfingar sem er viðurnefni á loftvarnarkerfi sem Trump vill að spanni hnöttinn og notist við gervihnetti.

Þetta staðhæfir Donald Trump Bandaríkjaforseti í viðtali við fjölmiðilinn CNBC í Davos í Sviss þar sem þjóðar- og viðskiptaleiðtogar koma saman á ráðstefnu Alþjóðaefnahagsráðsins. Samkomulagið sem unnið sé að komi til með að vara að „eilífu.“

Trump tilkynnti óvænt í kvöld að Bandaríkin muni falla frá refsitollum sem leggja átti á hóp Evrópuþjóða sem lýstu yfir stuðningi við Grænland og Danmörku í deilu þeirra við Bandaríkin um yfirráð yfir þessari stærstu eyju heims. 

Yfirlýsingin kom í kjölfar fundar Trumps með Mark Rutte, framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins, þar sem leiðtogarnir komu sér saman um einhvers konar ramma að samkomulagi um samskipti Bandaríkjanna og Grænlands.

Frábær fundur og frábær niðurstaða

Í ræðu sinni á Davos-ráðstefnunni nokkrum tímum áður útilokaði Trump að beita hervaldi til að ná yfirráðum á Grænlandi en kallaði eftir umsvifalausum viðræðum um framtíð svæðisins. Trump hefur lítið gefið upp um það hvað nýja samkomulagið felur í sér og sagt viðræðurnar á flóknu stigi. Rutte hefur einnig veitt takmarkaðar upplýsingar. 

„Þetta var frábær fundur með frábærri niðurstöðu, fyrir Bandaríkin, fyrir allt Atlantshafsbandalagið, fyrir Evrópu,“ sagði hann við fréttamann danska ríkisútvarpsins og klykkti út með að það þyrfti að raungera framtíðarsýn forsetans.

Þingkona fordæmir viðræðurnar

Þingkona Inuit Ataqatigiit á danska þjóðþinginu segir Atlantshafsbandalagið ekki hafa neinn rétt til að semja fyrir hönd Grænlands án aðkomu Grænlendinga.

Aaja Chemnitz, þingkona Inuit Ataqatigiit á danska þjóðþinginu.Epa//Sebastian Elias Uth

„Atlantshafsbandalagið hefur ekkert umboð til að semja um eitt né neitt án okkar Grænlendinga. Ekkert um okkur, án okkar. Og að Atlantshafsbandalagið eitthvað að segja um okkar land og málma er gjörsamlega út í hött,“ skrifar Aaja Chemnitz að því er Sermitsiaq greinir frá. Flokkur hennar berst fyrir sjálfstæði Grænlands.

Ónefndur talsmaður Atlantshafsbandalagsins segir viðræður fara í hönd meðal aðildarríkja og sér í lagi aðildarríkja við heimsskautið um að tryggja öryggi á norðurslóðum. 

„Samningaviðræður milli Danmerkur, Grænlands og Bandaríkjanna halda áfram og miða að því að tryggja að hvorki Rússland né Kína nái hernaðarlegri eða efnahagslegri fótfestu á Grænlandi,“ hefur Reuters eftir þessum ónefnda talsmanni.

Býr yfir verðmætum jarðmálmum

Grænland er í áttunda sæti yfir þau landsvæði sem búa yfir hvað mestum forða af sjaldgæfum jarðmálmum, samkvæmt greiningu Center for Strategic and International Studies. Stjórn Trumps hefur gert það eitt af sínum áhersluverkefnum að efla námugröft og vinnslu bandarískra fyrirtækja á slíkum málmum til að auka sjálfstæði þeirra gagnvart Kína sem stýrir í dag stærstum hluta þess iðnaðar.

Sjaldgæfir jarðmálmar eru notaðir í segla sem eru nauðsynlegir í ýmis vopnakerfi, rafknúin ökutæki, raftæki og öðrum mikilvægum atvinnugreinum.

Bandaríkin hafa frá seinna stríði haft frekar frjálsan aðgang að Grænlandi og dönsk stjórnvöld hafa lítið sett sig upp á móti aukinni hernaðarviðveru eða fjárfestingum bandarískra stjórnvalda í innviðum og efnahagi Grænlands. 

Fylgst var með öllum helstu vendingum í Davos í vaktinni hér á Vísi og má nálgast hana hér.


Tengdar fréttir

„Ramma framtíðar­sam­komu­lags“ náð um Græn­land og hætt við tolla

Donald Trump Bandaríkjaforseti er hættur við að leggja refsitolla á Evrópu vegna Grænlands. Hann segist hafa átt góðan fund með Mark Rutte framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins og þar hafi þeir náð saman um „ramma framtíðarsamkomulags varðandi Grænland og raunar alls heimsskautsins.“

Var á ráðstefnunni í Davos: „Fólk andaði kannski aðeins léttar“

„Ég held að það sem að fólk hafi aðallega verið að ræða um eftir þessa ræðu er þessi ruglingur með Ísland og Grænland. Og hvort hann sé að meina Grænland þegar hann segir Ísland eða hvort að Ísland þurfi að hafa áhyggjur af því sem hann er að segja. Ég held að það sé ekki alveg á hreinu.“ 

Verði að eignast þetta „stóra fallega stykki af ís“

Donald Trump Bandaríkjaforseti fór um víðan völl í ræðu sinni í Davos í dag. Hann ítrekaði enn og aftur að Bandaríkin „verði“ að eignast Grænland og að hann kalli eftir „tafarlausum viðræðum“ um kaup Bandaríkjanna á Grænlandi. Hann hyggist þó ekki beita til þess valdi. Alla veganna í tvígang virðist sem Trump hafi ruglast á nöfnum Íslands og Grænlands.

Davos-vaktin: „Við fengum allt sem við vildum“

Mikil spenna hefur ríkt milli Bandaríkjanna og ríkja Evrópu vegna ásælni Trumps í Grænland og var ræðu hans á ráðstefnu Alþjóðaefnahagsráðsins því beðið með mikilli eftirvæntingu í dag. Þar sagðist hann verða að eignast þetta „stóra fal­lega stykki af ís“ en nokkrum tímum síðar mátti greina meiri sáttatón hjá Bandaríkjaforseta. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×