Erlent

Tíu á­kærðir fyrir að drepa friðaða úlfa

Kjartan Kjartansson skrifar
Annar úlfanna sem mennirnir tíu eru sakaðir um að hafa drepið ólöglega í Eiðaskógi í janúar árið 2025.
Annar úlfanna sem mennirnir tíu eru sakaðir um að hafa drepið ólöglega í Eiðaskógi í janúar árið 2025. Efnahags- og umhverfisglæpadeild norsku lögreglunnar

Norsk yfirvöld hafa ákært tíu menn fyrir að drepa tvo úlfa í suðausturhluta landsins í fyrra. Úlfar eru taldir í bráðri útrýmingarhættu í Noregi og eru friðaðir. Nokkrir mannanna eru einnig ákærðir fyrir að reyna að drepa gaupu.

Mönnunum er gefið að sök að hafa drepið tvo úlfa, eitt karldýr og eitt kvendýr, í Eiðaskógi í Innlandet-fylki í suðausturhluta Noregs í janúar í fyrra. Veiðiþjófarnir eru sagðir hafa fylgst sameiginlega með úlfunum með myndavélum og staðsetningarbúnaði í rúma vikur áður en þeir felldu dýrin.

Þeir eru ákærðir fyrir ólöglegar veiðar og krefst saksóknari í umhverfisglæpamálum þess að þeir verði sviptir veiðileyfi og hald lagt á vopn þeirra og búnað. Lögregla lagði hald á rúmlega hundrað vopn í eigu þeirra, að því er segir í frétt norska ríkisútvarpsins.

Þrír mannanna eru einnig ákærðir fyrir að reyna að drepa gaupu, sömuleiðis í janúar í fyrra. Allir sakborningarnir eru sagðir heimamenn.

„Ólöglegar veiðar eru alvarlegur umhverfisglæpur sem hefur áhrif á líffræðilegan fjölbreytileika og hann er enn alvarlegri þegar þær eru skipulagðar,“ segir Hans Tore Høviskeland, saksóknarinn í málinu.

Allt að sex ára fangelsi liggur við því að veiða dýr í útrýmingarhættu samkvæmt norskum lögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×