Erlent

Fyrstu við­brögð við ræðu Donalds Trump: „Ég bíð enn eftir að mennirnir í hvítu sloppunum nái í hann“

Jakob Bjarnar skrifar
Óhætt er að segja að löng ræða Donalds Trump hafi fallið í grýttan jarðveg, fyrstu viðbrögð einkennast af fullkominni furðu.
Óhætt er að segja að löng ræða Donalds Trump hafi fallið í grýttan jarðveg, fyrstu viðbrögð einkennast af fullkominni furðu. AP Photo/Evan Vucci

Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda er einn þeirra sem tjáir sig um ræðu Donalds Trump Bandaríkjaforseta á ráðstefnu Alþjóðaefnahagsráðsins (World Economic Forum) en þar voru margir þjóðarleiðtogar heims staddir – í Davos í Sviss. Óhætt er að segja að viðbrögðin séu blendin; fólk veit eiginlega ekki hvaðan á sig stendur veðrið.

Trump var að ljúka ræðu sinni nú rétt í þessu. Fólk er byrjað að tjá sig á Facebook, um efni ræðunnar.

Að Íslendingar kalli sig „daddy“

Karen Kjartansdóttir ráðgjafi er ein þeirra.

„Ég var að kíkja á ræðu Trumps í Davos, hann segir að Íslendingar elski sig og kalli hann „daddy“. Ég legg ekki meira á ykkur.“

Ólafur telur Trump ekki með öllum mjalla.vísir/ívar

Margir tjá sig á þræði Karenar, þeirra á meðal er Ólafur sem segir einfaldlega: „Ég bíð enn eftir að mennirnir í hvítu sloppunum nái í hann. Af hverju er það ekki búið að gerast?“

Alexandra Briem borgarfulltrúi tjáir sig einnig.

„Við fólkið sem vill að við reynum að sleikja Trump upp og hafa hann góðan, eða læðast með veggjum og vona að hann taki ekki eftir okkur, vil ég segja að ég vona að þessar nýjustu yfirlýsingar hans á blaðamannafundi í gær og í Davos í dag sýni ykkur að það mun ekki virka.“

Trump í tómu tjóni

Alexandra segir Trump einfaldlega ekki í veruleikasambandi. Hann ruglist á löndum, tali um stríð sem hafa aldrei verið og samskipti sem aldrei áttu sér stað. Hún telur friðþægingu ekki skila neinu.

Alexandra Briem telur útséð með að nokkuð fáist fram þegar fautar eins og Trump eru annars vegar.vísir/anton brink

„Það sem fautar eins og hann vilja er að okkur líði eins og þeir séu búnir að vinna, að andstaða sé gagnslaus, svo við gefumst upp fyrir fram. Það er það síðasta sem við eigum að gera. Þannig sigra menn eins og hann. Stöndum með Grænlandi, stöndum með Danmörku, stöndum með Kanada, stöndum með Evrópu og stöndum með Íslandi.“

Kristinn Hrafnsson ritstjóri Wikileaks er ekki meðal aðdáenda Trumps, svo mikið er víst. Hann er forviða:

„Trump er í tómu tjóni í ræðu sinni í Davos núna. Nefnir Ísland aftur og aftur, segir að Íslendingar hafi kallað sig „daddy“. Eins að hlutabréfamarkaður í Bandaríkjunum hafi tekið dýfu vegna Íslands. - Þetta er tómt rant sem stenst enga skoðun. 

Kristinn hefur ekki haft Trump í hávegum og ekki breyttist það eftir ræðu hans sem lauk nú rétt í þessu.vísir/egill

Meðal annars nefndi forsetinn að engar vindorkuvinnsla væri í Kína. Heimildir Forbes segja að 16% af rafmagni Kína kæmi frá vindorku. Það verður ærið verkefni að fara yfir allar rangfærslur í rantinu.“

Hrun siðmenningar í beinni

Kristin segir það huggun harmi gegn að forsetinn segist ekki ætla að taka Grænland með hervaldi heldur með samningnum, en því sé erfitt að treysta. „Hann á til að snúast hraðar en vindmillurnar sem Trump segir að snúist ekki í Kína.“

Og Erni Árnasyni leikara er brugðið:

„Er maður að horfa á hrun siðmenningar í beinni? Donald Trump í Davos… Guð hjálpi þessum blessaða heimi okkar með svona fólk í stýrishúsi heimsins.“

Fáir eru hins vegar til að taka upp hanskann fyrir Donald Trump eftir þessa ræðu hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×