Erlent

Miklar sviptingar í Sýr­landi

Samúel Karl Ólason skrifar
Íbúar Tabqa eru sagðir hafa tekið stjórnarhernum fagnandi í morgu, eftir undanhald sveita SDF þaðan.
Íbúar Tabqa eru sagðir hafa tekið stjórnarhernum fagnandi í morgu, eftir undanhald sveita SDF þaðan. AP/Ghaith Alsayed

Stjórnarher Sýrlands og aðrar sveitir hliðhollar stjórnvöldum hafa í dag og um helgina rekið sýrlenska Kúrda (SDF) og bandamenn þeirra á brott frá stórum svæðum í austurhluta Sýrlands. Harðir bardagar eru sagðir eiga sér stað í borginni Raqqa og er herinn sagður hafa náð mikilvægum olíulindum í austurhluta landsins.

Á leiðinni til Raqqa tók stjórnarherinn bæinn Tabqa en hann þykir sérstaklega mikilvægur þar sem þar er stífla yfir Efratánna og þar er einnig gamall flugvöllur og herstöð. Blaðamaður AP fréttaveitunnar sem var í bænum segist hafa séð íbúa taka fagnandi á móti stjórnarhernum.

Ríkisstjórn Sýrlands hefur sakað SDF um aftökur á föngum áður en hörfað var frá Tabqa.

Raqqa og Tabqa höfðu verið í höndum SDF frá því vígamenn Íslamska ríkisins voru reknir þaðan af Kúrdum. Íbúar á svæðinu eru flestir Arabar og hafa yfirráð Kúrda þar ekki alltaf fallið í kramið hjá þeim. Komið hefur til deilna og átaka í gegnum árin.

Eins og áður segir hefur stjórnarherinn sótt hratt fram gegn Kúrdum í dag, eftir að leiðtogi þeirra tilkynnti að þeir myndu hörfa yfir Efratánna en óljóst er hve langt herinn mun fara inn í hefðbundið yfirráðasvæði SDF.

Sviptingarnar fylgja á hæla átaka milli stjórnarhersins og Kúrda í Aleppo fyrr í þessum mánuði.

Leiðtogi SDF á fund forsetans

Bandaríkjamenn og önnur vestræn ríki aðstoðuðu SDF verulega í baráttunni gegn kalífadæmi Íslamska ríkisins í Sýrlandi og í Írak. Síðan þá hafa bandarískir hermenn unnið með SDF. Samkvæmt Al-Jazeera er talið að um níu hundruð bandarískir hermenn hafi verið á yfirráðasvæði SDF í Sýrlandi.

Þeir eru ekki taldir hafa tekið þátt í átökunum undanfarnar vikur. Tölur um mannfall liggja ekki fyrir en stjórnarherinn segir að minnsta kosti fjóra hermenn fallna og leiðtogar SDF segja að þeir hafi einnig misst menn.

Mazloum Abdi, leiðtogi SDF, mun hitta Ahmed al-Sharaa, forseta Sýrlands, og Tom Barrack, sérstakan erindreka Bandaríkjanna, í Damaskus í dag. Abdi hefur kallað eftir því að alþjóðlegir aðilar miðli milli SDF og stjórnvalda.

Ekki er ár síðan al-Sharaa var skilgreindur sem hryðjuverkamaður af yfirvöldum Bandaríkjanna. Samband hans við ráðamenn í Bandaríkjunum, og kannski sérstaklega við Donald Trump, forseta, er þó talið orðið frekar gott. Trump hefur iðulega talað vel um hann.

Ekki hefur ræst úr samkomulagi

Eftir að al-Sharaa og sveitir hans leiddu skyndisókn gegn stjórnarher Bashar al-Assads í lok árs 2024, hafa hann og ríkisstjórn hans átt erfitt með að tryggja yfirráð yfir öllum hlutum hins stríðshrjáða Sýrlands og að ná til margra af þeim minnihlutahópum sem byggja landið.

Komið hefur til blóðugra átaka á undanförnu ári.

Í mars gerðu ríkisstjórnin og SDF samkomulag um að þau svæði sem Kúrdar stjórna myndu falla inn í ríkið á nýjan leik og að meðlimir SDF sem vildu gengju til liðs við stjórnarherinn. Það hefur ekki gengið eftir en viðræður höfðu átt sér stað milli ríkisstjórnarinnar og SDF að undanförnu.

Fyrr í vikunni gaf al-Sharaa út forsetatilskipun um að kúrdíska yrði eitt af formlegum tungumálum Sýrlands, að áramót Kúrda yrðu að frídegi í Sýrlandi, svo eitthvað sé nefnt.

Meðal þess sem ríkisstjórnin hefur viljað frá Kúrdum er, samkvæmt fjölmiðlum í Mið-Austurlöndum, að meðlimir SDF gangi í herinn sem einstaklingar en ekki í heilum sveitum. Að SDF láti herinn fá stjórn á landamærastöðvum við bæði Írak og Tyrkland. Að SDF hörfi frá svæðum þar sem Arabar eru í meirihluta. Að SDF láti af höndum stjórn á olíu- og gaslindum og gefi sömuleiðis ríkisstjórninni stjórn á stíflum og öðrum mikilvægum innviðum.

Leiðtogi SDF yrði gerður ríkisstjóri yfir Hasakah-héraði og aðrir háttsettir stjórnendur gerðir að embættismönnum. Þá fengju Kúrdar aðgang að þingi Sýrlands og önnur réttindi þeirra yrðu tryggð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×