Erlent

Reyna að rjúfa nettenginu endan­lega

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Ali Khameini, æðsti leiðtogi Írans.
Ali Khameini, æðsti leiðtogi Írans.

Klerkastjórnin í Íran vinnur í því að rjúfa tengingu borgara sinna við veraldarvefinn endanlega, að sögn samtaka sem fylgjast með vefritskoðun íranskra stjórnvalda. Verið sé að koma upp sérírönsku interneti án tengingar við umheiminn.

Filterwatch, samtök sem berjast fyrir frjálsum aðgangi Írana að veraldarvefnum, segja klerkana hafa lengi haft í hyggju að herða tökin enn þá meira á internetaðgangi Írana. Samkvæmt nýrri skýrslu samtakanna er stefnt að því að aðgangur að hinu alþjóðlega neti verði bundinn sérstöku leyfi stjórnarinnar.

„Ríkisfjölmiðlar og talsmenn ríkisstjórnarinnar hafa ýjað að því að þetta sé komið til að vera og vara við því að óheftur aðgangur að internetinu verði ekki í boði eftir 2026,“ segir í skýrslu samtakanna.

Samkvæmt umfjöllun þeirra felur þessi áætlun klerkastjórnarinnar í sér að aðeins þeir Íranir sem gengist hefðu undir bakgrunnsathugun og hlotið vottun stjórnvalda fengju aðgang að ritskoðuðum veraldarvefnum. Aðrir Íranir gætu aðeins tengst þjóðneti Írans, eins konar hliðarvef sem er ekki tengdur umheiminum.

Lokað hefur verið á internetið í Íran frá áttunda janúar síðastliðnum. Fjölmenn og blóðug mótmæli gegn stjórnvöldum hafa staðið yfir síðan í lok ársins sem leið og mörg þúsund manns liggja í valnum. Íranski herinn og byltingarvörðurinn hafa bæði verið staðnir að því að hefja skothríð á mótmælendafylkingar og sömuleiðis að fyrirskipa aftökur á mörg hundruð mótmælendum.

Samkvæmt umfjöllun Guardian hefur þróun staðið yfir á sérstöku þjóðneti frá árinu 2009 í kjölfar þess að stjórnvöld lokuðu á netaðgang vegna annarrar fjölmennrar mótmælabylgju. Það hafi falið í sér gífurlegan kostnað og sömuleiðis erfiðað stjórnvöldum að stýra landinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×