Innlent

At­lants­hafs­banda­lagið gæti aldrei orðið samt

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Þorgerður Katrín utanríkisráðherra
Þorgerður Katrín utanríkisráðherra Vísir/Ívar Fannar

Utanríkisráðherra telur að Íslandi stafi ekki ógn af Bandaríkjaforseta þrátt fyrir ítrekaðar yfirlýsingar hans um innlimun Grænlands. Mikilvægt sé að taka orð forsetans og annarra bandarískra ráðamanna alvarlega en standi þeir við þau sé Atlantshafsbandalagið í húfi.

Síðustu daga hefur Donald Trump Bandaríkjaforseti lagt mikla áherslu á mikilvægi þess að Bandaríkin innlimi Grænland en hann ræddi þá hugmynd fyrst árið 2019. Grænland hefur ítrekað komið upp á þessu öðru kjörtímabili forsetans en ráðamenn bæði í Grænlandi og Danmörku mótmæla.

„Ég vil því hvetja Bandaríkin eindregið til þess að hætta að hóta sögulega nánum bandamanni og öðru landi og annarri þjóð sem hefur sagt það mjög skýrt að hún sé ekki til sölu,“ sagði Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, í yfirlýsingu í gær.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, utanríkisráðherra, segir Atlantshafsbandalagið í húfi standi forsetinn við orð sín.

„Hátt í áttatíu ár hefur verið mjög farsælt samstarf þvert yfir Atlantshafið og þess vegna finnst mér miður og líður illa að sjá og heyra þessar yfirlýsingar sem eru vel að merkja ítrekaðar af hálfu Bandaríkjanna. Okkur ber að taka þær alvarlega og ég er sammála því sem þau segja meðal annars í Grænlandi, það er bara nóg komið,“ sagði Þorgerður í kvöldfréttum Sýnar.

Ber að taka fregnunum alvarlega

Þorgerður vildi ekki segja að Íslandi stafi ógn af Bandaríkjunum í ljósi nýjustu vendinga. Landið hafi átt í góðu sambandi við Bandaríkin og varnarsamningurinn er tryggur.

„Við erum í miklum samskiptum við þau og það er ekkert sem gefur það til kynna að það samstarf sé að versna,“ segir hún.

„En auðvitað er það þannig að þegar eitt NATO-ríki og stórveldi innan Atlantshafsbandalagsins er að gefa til kynna með beinum og óbeinum hætti að fara inn í annað ríki sem eru undir verndarvæng NATO ber okkur að taka því alvarlega.“

Samstarfs milli Norðurlandanna, sem hafi aldrei verið jafn dýrmætt og nú.

„Við erum öll að tala mjög skýrt, það verður ekkert um Grænland án Grænlendinga, framtíðin er í þeirra höndum og við eigum að virða konungsríki Danmerkur.“

Forseti sem lætur slag standa

Trump hélt blaðamannafund á laugardag auk Marco Rubio, utanríkisráðherra, Pete Hegseth, varnarmálaráðherra og Dan Caine, æðsta yfirmanns Bandaríkjahers. Á fundinum lagði Rubio mikla áherslu á að heimurinn þyrfti að átta sig á því að Bandaríkin hefðu nú forseta sem léti slag standa.

„47. forseti Bandaríkjanna spilar ekki leiki. Þegar hann segist ætla gera eitthvað, þegar hann segist ætla taka á einhverju vandamáli, þá meinar hann það og gerir,“ sagði Rubio.

Þorgerður segir tilefni til að taka orð Rubio alvarlega þar sem ítrekað hafi komið fram að yfirtaka Bandaríkjamanna á Grænlandi sé ekki í boði. Þessi stefna þýði að efla þurfi varnir Íslands og sýna samstöðu með bandamönnum.

„Ég tel það vera réttu leiðina til að standa fyrir grunngildum okkar og það er lýðræðið, það er frelsið, það eru mannréttindi og að friðhelgi landamæra sé virt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×