Erlent

Hæddist að vörnum Dana á Græn­landi: „Þeir bættu við einum hunda­sleða“

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump og Marco Rubio.
Donald Trump og Marco Rubio. AP/Alex Brandon

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur ítrekað talað um að Bandaríkin „verði“ að eignast Grænland. Það sé einkar mikilvægt fyrir þjóðaröryggi Bandaríkjanna. Trump nefndi þetta fyrst árið 2019 á sínu fyrra kjörtímabili en mun meiri þungi hefur færst í orðræðuna vestanhafs á undanförnum dögum.

Marco Rubio, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, ítrekaði um helgina að Trump stæði við orð sín. Ef hann segðist ætla að gera eitthvað, þá gerði hann það.

Í gærkvöldi sagði Trump enn og aftur að nauðsynlegt væri fyrir Bandaríkin að eignast Grænland. Hann sagði eyríkið umkringt kínverskum og rússneskum skipum og að Evrópusambandið þarfnaðist þess að Bandaríkin eignuðust Grænland.

Þá hæddist hann að Danmörku og því hvernig Danir væru að verja Grænland og hélt því fram að það eina sem Danir hefðu getað gert til að bæta varnir á Grænlandi hafi verið að senda þangað einn hundasleða.

Þingmaðurinn sem lagði þetta fyrst til við Trump

Áhuga Trumps á Grænlandi virðist að hluta til mega rekja til bandarísks öldungadeildarþingmanns frá Arkansas.

Árið 2019 sagði öldungadeildarþingmaðurinn Tom Cotton frá því að hann hefði upprunalega lagt til við Trump að Bandaríkin keyptu Grænland. Hann sagðist hafa rætt það sjálfur við sendiherra Danmerkur í Bandaríkjunum ári áður og í kjölfarið mun Cotton hafa rætt það einnig við Trump.

Þetta var nokkru áður en Trump hætti við opinbera ferð til Danmerkur, sumarið 2019, eftir að Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, sagði hugmyndina um að selja Bandaríkjunum Grænland vera fáránlega. Trump hafði þá nýlega opinberað þá hugmynd sína um að kaupa Grænland.

Sjá einnig: Trump staðfestir áhuga á Grænlandskaupum

Cotton skrifaði svo seinna í ágúst grein á vef New York Times þar sem hann fór yfir hugmyndina um kaupin. Rifjaði hann upp að ríkisstjórn Harrys Truman hefði árið 1946 reynt að kaupa Grænland en það hafi upprunalega verið skoðað árið 1867, um svipað leyti og verið var að skoða að kaupa Alaska af Rússum, sem var svo gert.

Í greininni staðfesti Cotton að hafa rætt kaup á Grænlandi við danska sendiherrann og sagði að slíkt yrði bæði í hag Bandaríkjamanna og Grænlendinga.

Cotton sagði Grænland hafa spilað stóra rullu í öryggi Bandaríkjanna í seinni heimsstyrjöldinni og í kalda stríðinu og eyjan geri það enn. Vísaði hann til þess að Kínverjar hefðu reynt að koma upp aðstöðu á Grænlandi en Bandaríkjamönnum hefði naumlega tekist að koma í veg fyrir það.

„Peking skilur að það er ekki eingöngu jarðfræðileg staðsetning Grænlands sem er mikilvæg heldur einnig efnahagslegir möguleikar eyjunnar,“ skrifaði Cotton.

Vísaði hann til þess að Grænland væri ríkt svokölluðum sjaldgæfum málmum en það er markaður sem Kínverjar eru allsráðandi á og er í senn mikilvægur svo gott sem allri framleiðslu á nútímatækni og hergögnum. Þar að auki sagði Cotton mögulegt að finna mætti umtalsvert magn olíu og jarðgass á og við Grænland.

Nokkrum vikum eftir að Cotton skrifaði áðurnefnda grein barst honum bréf sem átti að vera frá Ane Lone Bagger, utanríkisráðherra Grænlands. Þar var Cotton beðinn um aðstoð við fjáröflun vegna þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði frá Danmörku.

Þar stóð einnig að mikilvægt væri að auka samvinnu Grænlands og Bandaríkjanna og bæta tengsl ríkjanna.

Grænlendingum hefur reynst erfitt að koma af stað umfangsmikilli námuvinnslu þar í landi og að miklu leyti vegna innviðaskorts.

Sjá einnig: Óttast á­hrif orð­ræðu Trumps á fjár­festa

Bréfið fékk einnig dreifingu á samfélagsmiðlum en það reyndist þó falsað. Samkvæmt frétt Politiken hafði áðurnefndur ráðherra aldrei sent það og sögðu sérfræðingar í öryggismálum að líklega væri umeins konar áróðursherferð frá Rússum að ræða. Markmiðið væri að auka á deilur milli Bandaríkjanna og Evrópu.

Ef hann segir það, meinar hann það

Undanfarna daga hefur Trump-liðum verið margrætt um „Donroe-kenninguna“ svokölluðu, sem er tilvísun í utanríkisstefnu sem kennd er við James Monroe, fimmta forseta Bandaríkjanna.

Sú stefna snerist um að Norður- og Suður-Ameríka væri áhrifasvæði Bandaríkjanna. Er það í samræmi við nýja þjóðaröryggisstefnu ríkisstjórnar Trumps.

Frá því hann tók við embætti á nýjan leik hefur Trump haft afskipti af kosningum í Hondúras og í Argentínu og hótað forseta Kólumbíu. Hann hefur einnig talað um að hernema Panama-skurðinn á nýjan leik og reynt að þvinga Kanada efnahagslega til að ganga inn í Bandaríkin.

Marco Rubio, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði á blaðamannafundi á laugardaginn, eftir að Bandaríkjamenn námu Nicolás Maduro, forseta Venesúela á brott, að þegar Trump sagðist ætla að gera eitthvað, gerði hann það.

Rubio sagðist ekki skilja hvernig fólk hefði ekki áttað sig á því enn að Trump stæði við orð sín.

„Ef þið vissuð það ekki, vitið þið það núna,“ sagði Rubio.

„Svona mun þetta vera. Fólk verður að skilja að þetta er ekki bara forseti sem talar, skrifar bréf eða heldur blaðamannafundi. Ef hann segir að honum sé alvara um eitthvað, þá meinar hann það.“

Tengdar fréttir

Hvetur Grænlendinga til að lýsa yfir sjálfstæði

Tónlistarkonan Björk Guðmundsdóttir hvetur Grænlendinga til að lýsa yfir sjálfstæði í færslu sem hún birti á samfélagsmiðlum í dag. Þá segir hún Dani enn koma fram við Grænlendinga eins og annars flokks borgara.

„Það mun reyna á okkur hér“

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi utanríkisráðherra, kveðst sátt við þau svör og skýringar sem utanríkisráðherra hafi veitt á fundi utanríkismálanefndar í morgun vegna þeirrar stöðu sem uppi er eftir aðgerðir Bandaríkjanna gegn Venesúela um helgina. Hún telur ljóst að aðgerðirnar stangist á við alþjóðalög en hún væntir þess að þingnefndin muni eiga enn reglulegri fundi með utanríkisráðherra og fulltrúum ráðuneytisins í ljósi þeirra víðsjárverðu tíma sem uppi eru í alþjóðakerfinu. Það muni reyna enn frekar á stjórnmálamenn hér sem annars staðar að takast á við nýjan veruleika.

Nýr veruleiki ætli Bandaríkin að taka Grænland

Sigurður Ingi Jóhannsson formaður Framsóknarflokksins segir það skipta mestu máli í yfirlýsingum íslenskra yfirvalda að ítreka að allar þjóðir virði alþjóðalög. Hann segir yfirlýsingar utanríkisráðherra um helgina hafa verið veikar. Samstaða meðal þjóða um að virða alþjóðalög, lýðræði og frið sé það mikilvægasta. Hann segir það nýjan veruleika ætli Bandaríkin að taka Grænland og ekkert land verði óhult verði það raunin, ekki Ísland heldur.

Ekki endilega betri heimur fyrir Ísland

Formaður utanríkismálanefndar segir heim þar sem stórveldi beita valdi til að ná sínu fram ekki gera heiminn betri fyrir smáríki eins og Ísland. Það sé erfitt að sjá hvernig aðgerðir Bandaríkjanna í Venesúela samrýmist alþjóðalögum, en á móti hafi stjórn Maduro einkennst af „ógeðslegu stjórnarfari“. Trúnaður ríkir um það sem fram kom á fundi utanríkismálanefndar í morgun en utanríkisráðherra var gestur fundarins sem boðaður var í framhaldi af aðgerðum Bandaríkjanna gegn Venesúela um helgina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×