Enski boltinn

Draumaráðning Hjör­vars sem brosir breitt eftir tíðindi dagsins

Stefán Árni Pálsson skrifar
Hjörvar er ánægður með ákvörðun stjórnar Manchester United með láta Amorim fara.
Hjörvar er ánægður með ákvörðun stjórnar Manchester United með láta Amorim fara. vísir/sigurjón/getty

Portúgalinn Ruben Amorim var í dag rekinn sem knattspyrnustjóri Manchester United eftir fjórtán mánuði í starfi. Uppsögnin kemur íslenskum knattspyrnusérfræðingi ekki á óvart en Hjörvar Hafliðason hefur fylgst grannt með liði Manchester United í áratugi.

Amorim stýrði liðinu í síðasta sinn þegar það gerði 1-1 jafntefli við Leeds United á Elland Road í gær.

Eftir leikinn fór Amorim mikinn á blaðamannafundi og ítrekaði að hann væri knattspyrnustjóri United en ekki þjálfari liðsins.

Þá sagði hann að hann yrði í starfi næstu átján mánuðina. Darren Fletcher, fyrrverandi leikmaður liðsins, tekur við því til bráðabirgða og stýrir því gegn Burnley á miðvikudagskvöldið.

Klippa: Hjörvar Hafliða um brotthvarf Amorim: „Mikill gleðidagur“

„Þetta kom ekki á óvart. Hann eiginlega bað um að vera rekinn eftir leikinn gegn Leeds þegar hann fór í stjórnina og sagðist vera stjóri liðsins, ekki þjálfari þess,“ segir Hjörvar Hafliðason, knattspyrnusérfræðingur og stjórnandi hlaðvarpsins Dr. Football í kvöldfréttum Sýnar.

„En þetta snýst ekkert um úrslit. Ef þetta snerist um úrslit væri löngu búið að reka hann. Samkvæmt allri tölfræði er hann einn lélegasti stjóri í sögu félagsins. Hins vegar var það þannig með Ruben Amorim að hann var með fólkið með sér. Hann var svolítið líflegur karakter og fólk vildi að honum gengi vel. Hann kemur þarna inn á eftir Eric Ten Haag sem var frekar þurr náungi en Amorim er sá versti sem ég hef séð hjá Manchester United,“ segir Hjörvar og bætir við að félagið sé ekki vant því að ráða og reka þjálfara trekk í trekk.

Á valdi tilfinninganna

„Hann er ekki nægilega góður í því sem hann gerir og virðist vera algjörlega á valdi tilfinninganna. Þetta er því mikill gleðidagur fyrir þá sem halda með Manchester United,“ segir Hjörvar sem væri einna helst til í að sjá Ole Gunnar Solskjær og Roy Keane taka við liðinu.

„Manchester United er ekki þannig klúbbur að menn vilji fá einhvern hugsuð frá Braga í Portúgal eða einhvern sem er búinn að vera að þróa 3-6-1 kerfið í AZ Alkmaar. Manchester United er svona á valdi tilfinninganna og ég væri helst til í að sjá Solskjær aftur en svona faglega væri það maður eins og Cesc Fàbregas. Leikmaður sem var mjög sigursæll hjá Arsenal, Barcelona og Chelsea og við höfum séð hvað hann hefur verið að gera hjá Como. Ég er mjög hrifinn af því og hann væri mín draumráðning.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×