Enski boltinn

Brassinn var á­fram í stuði þegar Brentford af­greiddi Everton

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Igor Thiago fagnar öðru marka sinna fyrir Brentford í dag en hann er kominn með þrettán mörk í ensku úrvalsdeildinni á leiktíðinni. 
Igor Thiago fagnar öðru marka sinna fyrir Brentford í dag en hann er kominn með þrettán mörk í ensku úrvalsdeildinni á leiktíðinni.  Getty/ Jan Kruger

Brentford vann sannfærandi útisigur á Everton í Bítlaborginni í kvöld og er komið upp í sjöunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar í fótbolta. Newcastle vann Crystal Palace fyrir norðan.

Brasilíumaðurinn Igor Thiago hefur farið á kostum hjá Brentford á þessu tímabili og hann bætti þremur mörkum við safnið í 4-2 útisigri á Everton. Thiago er kominn með fjórtán deildarmörk og er næstmarkahæstur í deildinni.

Everton-menn eru að gefa eftir en liðið hefur aðeins unnið einn af síðustu fimm leikjum sínum og er komið niður í þrettánda sæti deildarinnar.

Thiago kom Brentford í 1-0 á 11. mínútu og skoraði síðan einnig þriðja markið á 51. mínútu. Nathan Collins skallaði inn annað markið mínútu fyrir það þriðja. Beto minnkaði muninn á 66. mínútu þegar hann skallaði inn fyrirgjöf Jack Grealish.

Thiago kórónaði síðan daginn og þrennuna með fjórða marki Brentford undir lok leiksins.  Grealish lagði upp mark fyrir Thierno Barry undir lokin og munurinn var því á endanum bara tvö mörk.

Tottenham náði ekki að vinna sinn fyrsta sigur á nýju ári þegar liðið missti niður forystu í 1-1 jafntefli á móti Sunderland. Sunderland hefur verið að gera góða hluti á móti stóru liðum deildarinnar og hefur nú leikið fimm leiki í röð án taps.

Ben Davies kom Tottenham í 1-0 á 30. mínútu en Brian Brobbey jafnaði metin tíu mínútum fyrir leikslok.

Bruno Guimaraes (á 71. mínútu) og Malick Thiaw (á 78. mínútu) tryggðu Newcastle 2-0 sigur á Crystal Palace mörkum með sjö mínútna millibili á lokahluta leiksins. Newcastle er í níunda sæti og nú aðeins stigi á eftir nágrönnum sínum í Sunderland.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×