Erlent

Í deilum við ná­grannann vegna trjáa

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Paul McCartney flottur á tónleikum í desember á síðasta ári í London.
Paul McCartney flottur á tónleikum í desember á síðasta ári í London. Getty

Bítillinn Paul McCartney stendur nú í deilum við nágranna sinn í Westminster í Lundúnum, vegna tveggja friðaðra tráa sem Paul vill fella en nágranninn ekki.

Um er að ræða tvö garðahlynstré (sycamore), sem eru á vernduðu svæði og þarf því sérstakt leyfi borgaryfirvalda til að fella þau.

Lögfræðingar Pauls segja að trén tvö séu orðin gömul, þau séu lúin, og verði þau felld verði meira pláss til vaxtar fyrir birkitré af agnbeykisættkvísl.

Nágranni hans, Reinhold Meinen, íhaldssamur fjárfestir, er áhyggjufullur yfir þessu og lýsti vanþóknun sinni í bréfi til borgaryfirvalda.

„Eins og fram kom í símtalinu, þá hef ég miklar efasemdir um að þessi tré séu illa haldin. Ég vil ítreka andstöðu mína við þessi áform og bið ykkur um að halda mér upplýstum um gang mála,“ sagði Meinen í bréfinu, en Telegraph fjallar um málið.

McCartney keypti húsið árið 1965 fyrir 40 þúsund pund, en Meinen keypti eignina við hliðina í fyrra á tæplega fjórtán og hálfa milljónir punda.

Annar íbúi á svæðinu segir að þar sem garðurinn sé allur friðaður sé mjög erfitt að fá leyfi fyrir hvers kyns framkvæmdum, gróðursetningum, skógarhöggi og öðrum framkvæmdum.

„Það hefur verið erfitt í gegnum tíðina meira að segja að fá leyfi til að gróðursetja eitt lítið plómutré,“ segir hann.

Fyrr á þessu ári fékk McCartney leyfi til að fella þrjú lime-tré og annað eikartré, en fyrir sex árum síðan stóð hann í deilum við borgaryfirvöld vegna áforma um að fella birkitré og tvö garðahlynstré.

Var það vegna þess að McCartney fannst trén skyggja of mikið á garðpallinn hans. Borgaryfirvöld sögðu umsókn hans skorta almennilega lýsingu á því hvað stæði til að gera og fór svo að hann dró umsókn sína til baka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×