Daninn skaut Man. United upp fyrir Liverpool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Patrick Dorgu fagnar marki sínu Manchester United á móti Newcastle United á Old Trafford í kvöld sem var hans fyrsta mark fyrir félagið.
Patrick Dorgu fagnar marki sínu Manchester United á móti Newcastle United á Old Trafford í kvöld sem var hans fyrsta mark fyrir félagið. Getty/Zohaib Alam

Manchester United kom sér upp í fimmta sæti ensku úrvalsdeildarinnar eftir 1-0 sigur á Newastle á Old Trafford í kvöld en þetta var eini leikurinn í deildinni á öðrum degi jóla.

Hetja kvöldsins var Daninn Patrick Dorgu sem skoraði sitt fyrsta mark fyrir félagið og það skilaði þremur stigum í hús.

Stórglæsilegt mark

Markið var stórglæsilegt, viðstöðulaust skot á lofti, óverjandi niður í bláhornið eftir að Newcastle mistókst að skalla langt innkast almennilega frá markinu. Markið kom á 24. mínútu og kórónaði frábæran fyrri hálfleik Danans.

United gerði vel á stórum köflum í fyrri hálfleik en seinni hálfleikurinn snérist meira um það að lifa af.

Newcastle átti seinni hálfleikinn

Seinni hálfleikurinn var nefnilega nánast eign gestanna í Newcastle en þrátt fyrir að vera mikið meira með boltann tókst þeim ekki að finna leiðir fram hjá Senne Lammens í marki United. Newcastle-menn fengu mörg tækifæri til að refsa heimamönnum en fengu ekki háa einkunn fyrir færanýtingu sínu í kvöld.

United slapp líka afar vel þegar Martinez nánast faðmaði boltann í teignum. Boltinn fór í brjóstið á Martinez og þaðan í báða handleggi hans. Varsjáin dæmdi ekki víti, þar sem að boltinn fór fyrst í brjóstkassa hans og að hann var einnig í glímu við leikmann Newcastle á sama tíma. Manchester United slapp með skrekkinn þar.

Fjögurra manna vörn

United stillti í fyrsta sinn í langan tíma upp fjögurra manna varnarlínu og náði að halda marki sínu hreinu í aðeins annað skiptið á tímabilinu. Eitthvað sem stuðningsmenn hafa kallað lengi eftir en hvort að þetta sé komið til að vera er önnur saga.

Hinn ungi Ayden Heaven átti mjög góðan leik í miðri vörn United og var öðrum fremur besti maður liðsins.  Dorgu var frábær í fyrri hálfleik en gaf svo mikið eftir.

Það voru margir hissa þegar Ruben Amorim tók Casemiro af velli eftir um klukkutíma leik, ekki síst Brasilíumaðurinn sjálfur, fjarvera hans hafði ekki góð áhrif á leik United-manna.

United-menn náðu þrátt fyrir allt að landa sigri og fóru fyrir vikið upp um tvö sæti, upp fyrir Liverpool og Sunderland.

Slæmt gengi Newcastle á útivelli hélt hins vegar áfram en liðið hefur aðeins unnið einn af níu útileikjum sínum á leiktíðinni.

Newcastle var 66 prósent með boltann og átti sextán skot að marki á móti níu skotum Manchester United. En aðeins þrjú þeirra hittu á markið, sem útskýrir hvers vegna, þegar allt kemur til alls, þótt þeir hafi verið með örlítið hærra xG, þá munaði aðeins 0,01 (1,17 á móti 1,18). 

Þeir hljóta að vera vonsviknir með að hafa ekki náð að skora. Manchester United tókst hins vegar að skora glæsimark og rauðklæddir menn eru í skýjunum, enda hafa þeir bundið enda á svekkjandi sigurgöngu á Old Trafford og komist upp í fimmta sæti ensku úrvalsdeildarinnar.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira