Erlent

Þetta eru fjöl­mennustu borgir í heimi

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Fólk á ferðinni á háannatíma í Jakarta í Indónesíu.
Fólk á ferðinni á háannatíma í Jakarta í Indónesíu. Getty/Firdaus Wajidi

Árið 1950 bjuggu aðeins um 20% heimsbyggðarinnar í borgum. Undanfarna áratugi hefur þéttbýlisvæðing farið vaxandi á heimsvísu og er hlutfalli þeirra sem nú búa í borgum komið upp í 45% samkvæmt nýrri skýrslu Sameinuðu þjóðanna. Á sama tíma hefur fjöldi jarðarbúa margfaldast, úr um 2,5 milljörðum árið 1950 upp í um 8,2 milljarða í ár samkvæmt skýrslunni.

Borgir eru skilgreindar sem svæði þar sem íbúar eru 50 þúsund eða fleiri og um 1500 íbúar á hvern ferkílómetra. Á móti hefur hlutfall mannfjölda sem býr í bæjum með að minnsta kosti fimm þúsund íbúa farið ögn lækkandi, úr 40% og niður í 36% á sama 75 ára tímabili. Hlutfall þeirra sem búa í dreifbýli hefur einnig dregist saman en áætlað er að aðeins 19% heimsbyggðarinnar búi í dreifbýli, sem er helmingi minna en var 1950.

Borgir stækka og ofurborgum fjölgar

Fram kemur í niðurstöðum skýrslunnar að þéttbýlisvæðingin sé einhver stærsta lýðfræðilega breytingin sem hefur átt sér stað í mannkynssögunni, en með henni hefur gjörbreyst hvernig fólk býr, starfar og byggir upp samfélög um allan heim.

Fjölbreyttir ferðamátar íbúa í Jakarta í Indónesíu sem er fjölmennasta borg í heimi árið 2025.Getty/ Afriadi Hikmal

Athygli vekur að svokölluðum ofurborgum, sem hafa tíu milljónir íbúa eða fleiri, heldur áfram að fjölga. Árið 1975 voru slíkar borgir einungis átta, en í ár eru þær orðnar 33 og þar af eru 19 í Asíu. Spár gera ráð fyrir að þeim muni áfram fjölga og verði orðnar 37 árið 2050.

Aðeins ein fjölmennustu borganna ekki í Asíu

Fjölmennasta borgin er Jakarta, höfuðborg Indónesíu, þar sem búa nær 42 milljónir. Næstfjölmennust er Daka í Bangladess þar sem búa 37 milljónir og þá Tókýó í Japan með 33 milljónir íbúa. Kaíró í Egyptalandi er eina borgin sem kemst á topp tíu listann sem ekki er í Asíu, en á listanum eru einnig Nýja-Delí og Kalkútta í Indlandi, Shanghæ og Guangsú í Kína, Manila á Filippseyjum, og Seúl í Suður-Kóreu.

Í skýrslunni er að finna ýmsar athyglisverðar upplýsingar um mannfjölda og þéttbýlisvæðingu á heimsvísu en hana má finna í heild sinni hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×