Íslenski boltinn

Segir ó­nefndan aðila hafa unnið gegn sér hjá Breiða­bliki

Sindri Sverrisson skrifar
Halldór Árnason starfaði í sex ár fyrir Breiðablik, þar af síðustu tvö ár sem aðalþjálfari liðsins.
Halldór Árnason starfaði í sex ár fyrir Breiðablik, þar af síðustu tvö ár sem aðalþjálfari liðsins. vísir/Diego

Fótboltaþjálfarinn Halldór Árnason, sem gerði Breiðablik að Íslandsmeistara fyrir rúmu ári síðan, segir það vissulega hafa komið sér á óvart þegar hann var rekinn frá félaginu í haust. Hann hafi hins vegar verið búinn að heyra frá leikmönnum að ákveðinn aðili innan félagsins væri að vinna gegn honum.

Þetta segir Halldór í ítarlegu viðtali við Fótbolta.net nú þegar rúmur mánuður er síðan hann var látinn fara frá Breiðabliki, eftir sex ára dvöl, og Ólafur Ingi Skúlason tók við starfinu.

Halldór var rekinn örfáum dögum fyrir leik Breiðabliks við finnska liðið KuPS undir lok október, þegar liðið átti einnig fyrir höndum úrslitaleik við Stjörnuna í lokaumferð Bestu deildarinnar þar sem tveggja marka sigur hefði tryggt Blikum Evrópusæti.

Hafi reynt að skapa óróa í klefanum

„Þetta kom á óvart, en leikmenn höfðu að vísu komið til mín nokkrum vikum áður og sagt mér frá því að það væri aðili í kringum félagið sem væri búinn að vera í sambandi við leikmennina, væri að reyna búa til óróa í klefanum, reyna komast að því hvort leikmenn væru búnir að missa trúna á þjálfarateyminu,“ sagði Halldór við Fótbolta.net.

„Sömu leikmenn sögðu mér á þeim tíma að þessi aðili hefði verið sendur til baka með þau skilaboð að svo væri alls ekki, leikmannahópurinn og teymið væru bara ein heild sem bæru sameiginlega ábyrgð á því að liðið væri ekki í betri stöðu en það var á þeim tíma, heildin væri þétt og stæði saman í því að koma liðinu aftur á rétta braut. Þetta var fljótlega eftir Evrópuleikina úti í San Marínó [28. ágúst] þar sem við tryggðum okkur Evrópusæti. Ég spáði ekki meira í það á þeim tíma,“ sagði Halldór sem vildi ekki nafngreina þann sem átti að hafa unnið gegn honum.

Þolinmóður varðandi næsta skref

Eftir brotthvarf Halldórs og undir stjórn Ólafs Inga náði Breiðablik í sitt fyrsta stig í Sambandsdeildinni, með markalausu jafntefli við KuPS, og vann svo Stjörnuna en þó aðeins 3-2 og missti því af sæti í Evrópukeppni á næstu leiktíð. Fram undan er svo leikur við Loga Tómasson og félaga í Samsunspor á fimmtudagskvöld á Laugardalsvelli.

Halldór er hins vegar að vega og meta sín næstu skref eftir að hafa tekið sér frí þegar Breiðablik hafði tekið sína stóru ákvörðun, aðeins rúmum tveimur mánuðum eftir samningurinn við Halldór var framlengdur til ársins 2028.

Hann fékk símtöl og fyrirspurnir frá öðrum félögum fyrstu dagana eftir brottreksturinn en segist hafa viljað tíma til að hlaða batteríin og „búa til smá fjarlægð frá Breiðablikstímanum“, áður en að hann tæki að sér nýtt starf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×