Erlent

Pútín tekur vel í „friðar­á­ætlun Trumps“

Samúel Karl Ólason skrifar
Vladimír Pútín, forseti Rússlands, á fjarfundi með þjóðaröryggisráði sínu í gær.
Vladimír Pútín, forseti Rússlands, á fjarfundi með þjóðaröryggisráði sínu í gær. AP/Gavriil Grigorov, Sputnik

Vladimír Pútín, forseti Rússlands, segir að friðaráætlun sem kynnt var fyrir ráðamönnum í Úkraínu á dögunum, gæti verið grunnur að friðarsamkomulagi milli Rússlands og Úkraínu. Á fundi þjóðaröryggisráðs Rússlands í gærkvöldi hótaði Pútín að leggja undir sig enn meira landsvæði í Úkraínu, verði áætlunin ekki samþykkt.

Umrædd friðaráætlun var skrifuð af bandarískum og rússneskum erindrekum, án aðkomu ráðamanna í Úkraínu eða Evrópu, og hefur verið lýst sem „óskalista“ Pútíns. Greining blaðamanna Guardian bendir til þess að hlutar skjalsins hafi verið þýddir beint úr rússnesku.

Sjá einnig: Svona lítur friðaráætlun Bandaríkjamanna og Rússa út

Hún er í 28 liðum og þykir halla verulega á Úkraínumenn. Í áætluninni eru þó nokkrir liðir sem Úkraínumenn hafa áður sagt að komi ekki til greina, eins og að gefa eftir landsvæði, og áætlunin þykir óljós hvað varðar öryggisráðstafanir í framtíðinni. Þá eru liðir í áætluninni sem ráðamenn í Evrópu munu eiga erfitt með að sætta sig við.

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur farið fram á að Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, skrifi undir áætlunina fyrir næsta fimmtudag. Bandaríkjamenn eru sagðir hafa gefið til kynna að ef Selenskí skrifi ekki undir gætu þeir stöðvað flæði vopna og upplýsinga frá Bandaríkjunum til Úkraínu.

Í ávarpi til úkraínsku þjóðarinnar sagði Selenskí í gær að Úkraínumenn stæðu frammi fyrir mjög erfiðum kostum.

Sagði Evrópumenn ekki átta sig á stöðunni

Á áðurnefndum fundi í gærkvöldi sagði Pútín að engin formleg skilaboð varðandi friðaráætlunina hefðu borist til Moskvu. Það taldi hann vera vegna þess að Úkraínumenn og ráðamenn í Evrópu væru mótfallnir tillögunum.

„Svo virðist sem Úkraínumenn og bandamenn þeirra í Evrópu séu enn haldnir þeirri tálsýn að hægt sé að sigra Rússland á vígvellinum,“ sagði Pútín samkvæmt RIA fréttaveitunni. Þá bætti hann við að þeir áttuðu sig ekki á því hvað væri að gerast á vígvellinum.

„Ef Kænugarður neitar að ræða friðaráætlun Trumps, verða bæði þeir og evrópsku stríðsmangararnir að skilja að það sem gerðist í Kúpíansk muni óhjákvæmilega gerast annars staðar á víglínunni,“ sagði Pútín.

Það að bakhjarlar Úkraínu beri ábyrgð á þjáningum Úkranumanna og stríðinu yfir höfuð með því að hafa framlengt það með stuðningi við Úkraínumenn er algengur áróður frá Rússum.

Sjá einnig: Sakar Evrópu um stríðsæsingu

Rússneski forsetinn lýsti því svo yfir að hann væri að mestu sáttur við stöðuna á víglínunni.

Forsvarsmenn rússneska hersins lýstu því yfir á dögunum að þeir hefðu náð fullum tökum á borginni Kúpíansk í Karkívhéraði. Úkraínumenn neita því og segja enn barist um borgina en Rússar hafa reynt að ná henni um nokkuð langt skeið.

Rússar hafa sótt fram víða í austurhluta Úkraínu á undanförnum árum en framsókn þeirra hefur verið hæg og mjög kostnaðarsöm.


Tengdar fréttir

Vilja fá Selenskí til að samþykkja „óskalista“ Pútíns

Ráðamenn í Evrópu virðast verulega tortryggnir í garð nýrrar friðaráætlunar vegna Úkraínustríðsins sem ku hafa verið samin af sérstökum erindrekum frá Bandaríkjunum og Rússlandi. Áætlunin er sögð í takti við fyrri kröfur ráðamanna í Rússlandi í garð Úkraínu og að hún fæli í raun í sér uppgjöf Úkraínumanna.

Tugir látnir eftir árás á íbúðarhúsnæði

Að minnsta kosti 25 eru látnir, þar á meðal þrjú börn, eftir að rússnesk flugskeyti hæfðu íbúðarhúsnæði í vesturhluta Úkraínu. Rúmlega sjötíu særðust í árásinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×