Upp­gjörið: Víkingur - FH 2-0 | Víkingur er Ís­lands­meistari

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Víkingur er Íslandsmeistari! 
Víkingur er Íslandsmeistari! 

Víkingur er Íslandsmeistari karla í fótbolta árið 2025 eftir 2-0 sigur gegn FH í 25. umferð Bestu deildar karla. Valdimar Ingimundarson og Helgi Guðjónsson skoruðu mörkin sem tryggðu Víkingum titilinn.

Þetta er áttundi Íslandsmeistaratitill Víkings og sá þriðji á síðustu fimm árum. Víkingar fóru langleiðina með að tryggja titilinn í síðustu umferð og hafa nú gert það ómögulegt fyrir Valsmenn að ná þeim, þó tveir leikir séu eftir af tímabilinu.

Gylfi Þór Sigurðsson var lykilleikmaður á leið Víkings að Íslandsmeistaratitlinum í ár. 

Sölvi Geir Ottesen stýrði Víkingsliðinu þar með að titli á sínu fyrsta tímabili sem aðalþjálfari. Víkingur var lengi vel á eftir Val í baráttunni en hefur farið taplaust í gegnum síðustu sjö leiki og unnið sex af þeim.

Sölvi Geir fagnar nýtilkomnum titli. 

Víkingar stigu upp á meðan önnur lið gáfu eftir, fara í frí yfir landsleikjahléið sem Íslandsmeistarar og munu eflaust fagna vel í kvöld, jafnvel lengur. 

Flugeldasýning fór í gang strax að leik loknum. 

Mættu með læti

Víkingar byrjuðu þennan leik af þvílíkum krafti, eins og tilefni var til. Þeir sköpuðu sér dauðafæri strax í upphafi leiks og tóku forystuna eftir aðeins níu mínútur.

Valdimar Ingimundarson skoraði markið, með þrumufleyg upp í þaknetið, eftir góða pressu Gylfa Sigurðssonar. Hann stal boltanum af Tómasi Orra Róbertssyni og stakk honum inn fyrir á Valdimar.

Valdimar skoraði fyrsta markið snemma.vísir / ernir

FH lagðist ekki

Eftir markið, og miðað við fyrstu mínútur leiksins, áttu flestir von á því að Víkingar myndu ganga á lagið og gera út af við þennan leik. Það hefði verið auðvelt fyrir gestina að játa sig sigraða snemma en FH var alls ekki til í það og veitti góða mótspyrnu.

Leikurinn jafnaðist út og bauð upp á mikla skemmtun, færi á báða bóga og hörkubaráttu. Kjartan Kári átti aukaspyrnu sem small í slánni og FH hefði líklega átt að fá vítaspyrnu þegar Sigurður Bjartur Hallsson féll við í vítateignum, en fleiri mörk voru ekki skoruð og Víkingar fóru með eins marks forystu inn í hálfleik.

Menn tókust vel á í Víkinni í kvöld. vísir / ernir

Hægur seinni hálfleikur sem Helgi sprengdi upp

Seinni hálfleikurinn gekk hægt fyrir sig og sá fá færi, mikið um stopp og skiptingar, meira að segja dómararnir þurftu að gera breytingar á sínu teymi. Hart barist inni á vellinum en sú barátta skilaði sér ekki í marki fyrr en undir lok leiks.

Helgi Guðjónsson skoraði annað mark Víkings á 84. mínútu og gulltryggði titilinn. Flott skallamark eftir fyrirgjöf frá hinum bakverðinum, Karli Friðleifi Gunnarssyni.

Eftir markið ætlaði allt um koll að keyra í Víkinni, spennan hafði magnast upp allan seinni hálfleikinn og losnaði loksins. Helgi reif sig úr að ofan og sýndi sturluðum stuðningsmönnum Víkings stælta vöðva.

Víkingur hélt marki sínu hreinu, sigldi öruggum 2-0 sigri í höfn og Íslandsmeistaratitlinum í leiðinni.

Sturluð stemning. vísir / ernir

Stemning og umgjörð

Víkingar skipulögðu þennan uppselda leik virkilega vel, stúkan var stútfull og blikkandi rauð ljós loguðu út um allt. Hverjum einasta fána í Fossvogi var veifað af ungum iðkendum Víkings. Áhorfendur sem komust ekki fyrir í stúkunni stóðu á pöllum og allir létu vel í sér heyra.

Strax eftir leik fór flugeldasýning í gang og stuðningsmenn stormuðu inn á völlinn. Faðmlög og kossar, bros á hverju andliti og augljóst að heimavöllur hamingjunnar stóð undir nafni.

Myndir 

Ernir Eyjólfsson, ljósmyndari Vísis, var á vellinum og fangaði stemninguna. Fleiri myndir má sjá hér fyrir neðan. 

Viðtöl 

Klippa: Fyrirliðinn Ekroth fagnar titlinum

Dómarar

Risastór, og líklega röng, ákvörðun hjá Elíasi Inga Árnasyni að dæma ekki vítaspyrnu þegar Sigurður Bjartur Hallsson var felldur á 30. mínútu. Hefði breytt sviðsmyndinni töluvert ef FH hefði jafnað leikinn, en miðað við gírinn sem Víkingar voru í voru þeir alltaf að fara að finna leiðir til að vinna leikinn.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira