Veður

Hæg­viðri og víða bjart

Atli Ísleifsson skrifar
Hiti verður á bilinu fimm til tólf stig, mildast syðst.
Hiti verður á bilinu fimm til tólf stig, mildast syðst. Vísir/Anton Brink

Veðurstofan gerir ráð fyrir hægviðri í dag og víða björtu veðri, en stöku skúrir sunnan- og vestanlands í fyrstu.

Á vef Veðurstofunnar segir að það gangi í norðvestan átta til fimmtán metra á sekúndu í kvöld fyrir austan með dálítilli vætu. Hiti verður á bilinu fimm til tólf stig, mildast syðst.

Lægir smá saman á morgun. Snýst í sunnan 3-10 og þykknar upp vestantil annað kvöld, en léttir til fyrir austan.

„Á Bretlandseyjum og í Noregi hafa appelsínugular og rauðar viðvaranir verið gefnar út vegna lægðarinnar, sem þar er kölluð Amy. Lægðin heldur sig nokkuð fjarri frá Íslandi og mun því ekki hafa mikil áhrif hér á landi. Þó er útlit fyrir norðvestan hvassviðri austast á landinu og þar geta verið snarpar vindhviður snemma á laugardag. Varasamt ferðaveður fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind og fólki á þessum slóðum er bent á að tryggja lausamuni,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Spákort fyrir klukkan 14 í dag.Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á laugardag: Norðvestan 3-8 m/s og lengst af bjart sunnan- og vestanlands, en 10-18 fyrir austan og lítilsháttar væta. Dregur úr vindi síðdegis og léttir til eystra. Hiti 2 til 9 stig að deginum, mildast syðst.

Á sunnudag: Suðvestlæg eða breytileg átt, 3-10 og rigning eða skúrir, en þurrt að kalla austantil. Hiti breytist lítið.

Á mánudag: Vestlæg átt, 5-15, hvassast á annesjum norðantil. Rigning eða slydda nyrst, en bjart með köflum sunnan heiða. Hiti 1 til 8 stig yfir daginn, mildast SA-lands.

Á þriðjudag: Norðvestlæg átt og slydda eða snjókoma fyrir norðan, en lægir síðdegis og léttir víða til. Áfram svalt.

Á miðvikudag og fimmtudag: Útlit fyrir vestlæga átt með vætu á köflum, en þurrt að kalla austantil. Hlýnar heldur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×