Upp­gjörið: Fram - FHL 4-0 | Framarar á­fram í deild þeirra bestu

Sesselja Ósk Gunnarsdóttir skrifar
498577707_10162579425812270_7026243044649470695_n
vísir/ernir

Fram tryggði sér áframhaldandi sæti í deild þeirra Bestu með 4-0 sigri á FHL í kvöld. Una Rós Unnarsdóttir átti frábæran leik fyrir liðið og átti stóran þátt í sigri Fram í kvöld með marki og stoðsendingu.

Leikurinn fór vel af stað og tók Fram fljótlega öll völd á vellinum. Liðin fékk fín færi en tókst ekki að nýta þau fyrr en á 27. mínútu þegar Olga Ingibjörg Einarsdóttir tók skot í teignum með viðkomu í varnarmanni FHL og endaði í netinu. Tíu mínútum síðar voru Framkonur aftur á ferðinni og skallaði þá Murielle Tiernan boltanum í netið eftir fyrirgjöf Dominique Bond-Flasza. 2-0 og þannig stóðu leikar í hálfleik.

FHL kom út af krafti í síðari hálfleik og náði að ýta Fram ofar á völlinn. FHL fengu fín færi en náðu ekki að nýta sér þau.

Eyrún Vala Harðardóttir náði svo að bæta við þriðja marki Fram á 71. mínútu leiksins. Þremur mínútum síðar bætti Una Rós Unnarsdóttir við fjórða marki liðsins og gulltryggði Fram sigurinn.

Tvær umferðir eru eftir í úrslitakeppni í neðri hlutanum. En með sigri Fram í kvöld er ljóst að Tindastóll fellur niður um deild og mun leika í Lengjudeildinni á næsta tímabili. FHL var þegar fallið en liðið er með fjögur stig í neðsta sæti deildarinnar.

Atvik leiksins

Þriðja mark leiksins kom á góðum tíma fyrir Fram sem hafði legið aðeins neðar á vellinum í um það bil tuttugu mínútur. Það var því þungu fargi létt af leikmönnum að ná þriðja markinu og ná aftur tökum á leiknum.

Stjörnur og skúrkar

Una Rós Unnarsdóttir var frábær í kvöld en hún skilaði marki og stoðsendingu fyrir Fram. Einnig sá hún um föst leikatriði fyrir liðið og skilaði því með prýði.

Murielle Tiernan einnig með mark og stoðsendingu en hún var öflug fyrir Fram á toppnum.

Stemning og umgjörð

Fín umgjörð hjá Fram en eins og hefur komið fram gat Fram tryggt sér áframhaldandi veru í Bestu deildinni með sigri. Hefði þess vegna viljað sjá fleiri stuðningsmenn í stúkunni.

Dómarar

Brynjar Þór Elvarsson var á flautunni í kvöld, með honum voru Nour Natan Ninir og Jovan Subic. Engin vafamál eða atvik að mínu mati og fékk leikurinn að flæða vel.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira