Upp­gjör: Breiða­blik - KA 1-1 | Um­deild víta­spyrna tryggði Ís­lands­meisturunum stig

Árni Jóhannsson skrifar
Fyrirliðinn Höskuldur Gunnlaugsson jafnaði metin af vítapunktinum.
Fyrirliðinn Höskuldur Gunnlaugsson jafnaði metin af vítapunktinum. Vísir/Diego

Það var dramatík þegar Breiðablik og KA skildu jöfn í 17. umferð Bestu deildar karla í dag. Blika skoruðu í lokin en markið var dæmt af og þess vegna skildu leikar 1-1.

Breiðablik byrjaði talsvert betur og mögulega sat framlengdur Evrópuleikur í löppunum á KA mönnum í byrjun leiks. Blikar voru að þreifa á varnarlínu gestanna, pota hér og þar til að sjá hvar hægt var að komast og komu sér í fínar stöður. Varnarlína KA var hinsvegar þétt og náði ða koma í veg fyrir að Steinþór í markinu þurfti að taka á honum stóra sínum í mjög mörg skipti.

Mikael Breki skorar fyrsta mark leiksins.Vísir / Diego

Eftir um 10 mínútna leik náðu KA menn að koma sér betur inn í leikinn eftir að hafa staðið af sér fyrstu flóðbylgjuna frá heimamönnum. Á 11. mínútu voru gestirnir svo komnir yfir. Jóan Simun Edmundson komst þá upp kantinn hægra megin og reyndi fyrirgjöf sem fór í varnarmann. Boltinn hélt þó áfram för sinni inn í teig Blika sem pössuðu ekki nógu vel upp á að hann myndi skoppa í teignum og Jóan náði aftur í boltann. Færeyingurinn sendi boltann á Ásgeir Sigurgeirsson sem renndi honum á Mikael Breka Þórðarson sem lét skotið ríða af og söng það í netinu þrátt fyrir góða tilraun Antons Ara í markinu til að verja.

Breiðablik lét þetta ekki slá sig út af laginu og náðu aftur tökum á leiknum og fóru að þjarma að gestunum. Steinþór þurfti að taka á honum stóra sínum og þurfti einnig aðstoð tréverksins við að halda markinu hreinu en kom þó engum vörnum við þegar Blikar fengu víti á 31. mínútu. 

Höskuldur skorar úr vítinu af öryggi.Vísir / Diego

Breiðablik náði fyrirgjöf af vinstri kanti og þegar Marcel Römer ætlaði að hreinsa boltann í burtu náði Ágúst Orri Þorsteinsson til knattarins fyrst þannig að Römer sparkaði undir sólann á Ágústi. Vítaspyrnan var dæmd og Jóhann Ingi var viss í sinni sök en það er alveg hægt að mótmæla þessum dómi.

Höskuldur Gunnlaugsson steig upp og sett boltann af miklu öryggi í netið. Steinþór henti sér í hina áttina miðað við spyrnuna.

Fátt markvert gerðist það sem eftir lifði fyrri hálfleiks. Fátt markvert gerðist líka fyrstu mínútur af seinni hálfleik og lyktaði hann mjög svo af jafntefli.

Hart barist. Að sjálfsögðu.Vísir / Diego

KA menn náðu hinsvegar að finna orku og fóru að ná að skapa usla í vörn Breiðabliks sem þurftu oft á aðstoð Antons Ara að halda við að fá ekki á sig fleiri mörk. Blikar aftur á móti voru ekki að ná að opna þétta KA menn og má færa rök fyrir því að þreyta hafi verið komin í lappirnar á þeim en snertingar og sendingar sem mögulega hefðu opnað hliðin klikkuðu og því urðu ekki mörg marktækifæri hjá heimamönnum.

Hallgrímur Mar með tilraun.Vísir / Diego

KA geta nagað sig í handabökin að nýta ekki góða kaflann sinn betur því Blikar náðu vopnum sínum aftur síðustu 10 mínútur leiksins og gerðu allt sem þeir gátu til að vinna leikinn. Heimamenn skoruðu mark sem var dæmt af þegar komnar voru þrjár mínútur fram yfir venjulegan leiktíma.

Birnir Snær Ingason vaknaði til lífsins í seinni hálfleik en náði ekki að setja markið.Vísir / Diego

Blikar fengu horn, sem KA menn voru ósáttir við, sem Höskuldur Gunnlaugsson framkvæmdi. Hann fann kollinn á Tobias Thomsen sem náði skalla sem var varinn, Viktor Örn Margeirsson tók frákastið og böðlaði boltanum yfir marklínuna. Allt trylltist í stúku, á vellinum og í boðvöngum liðanna en þegar langt var liðið þá fóru að renna tvær grímur á Blikana og bros að færast yfir andlit KA manna. Jóhann Ingi Jónsson var nefnilega búinn að dæma aukaspyrnu vegna hendi á Viktor Örn og rak síðan Harald Björnsson markmannsþjálfara út af fyrir að hafa komið inn á völlinn. Þá trylltist allt hjá heimamönnum sem töldu sig hlunnfarna en KA vorum mjög svo ánægðir með dóminn.

Tobias skallaði í þvöguna.Vísir / Diego
Viktor Örn fagnar markinu sem ekki varð. Gleðin fékk að lifa í dágóða stund áður en tekin var ákvörðun.Vísir / Diego

Skömmu síðar var flautað af og stigunum skipt í þessum leik. Stigið gerir mögulega meira fyrir KA en Blikar náðu ekki að tylla sér á toppinn eins og þeir hefðu líklega viljað.

Atvik leiksins

Markið sem var dæmt af í lok leiks er atvik leiksins. Það er mál manna að um réttan dóm hafi verið að ræða og að Viktor Örn hafi notað hendina til að koma boltanum yfir línuna eða í það minnsta notað hana til að hjálpa til við það. Þessi tvö aukastig voru þannig hrifsuð af Blikum.

Stjörnur og skúrkar

Anton Ari Einarsson var líklega besti maður Breiðabliks í dag. Hann kom í veg fyrir að mörk KA manna yrðu fleiri. Að sama skapi vantaði upp á gæði sóknarlega og sást Tobias Thomsen t.a.m. lítið í dag.

Anton Ari þurfti nokkrum sinnum að taka til sinna ráða.Vísir / Diego

Hjá KA var það varnarlínan sem skóp þetta stig. Þau skot sem Blikar náðu að láta ríða af fóru í varnarmenn KA eða hrammana á Steinþóri. Mikael Breki var svo sá sem náði þannig lagað í stigið með fyrsta marki sínu í sumar.

Ein af sóknum KA í seinni hálfleik.Vísir / Diego

Umgjörð og stemmning

Kópavogsvöllur skartaði sínu fegursta og veðrið var alveg í lagi. Það voru mjög fáir á vellinum og stemmningin eftir því. Maður heyrði mest þegar dómarinn var að taka sviðsljósið.

Dómarinn

Jóhann Ingi Jónsson hafði í nægu að snúast. Hann dæmdi víti á KA sem ugglaust má ræða og svo dæmdi hann mark af Blikum sem hægt er að ræða líka. Hann tók sér tíma í þá ákvörðun og samræður við aðstoðarmenn sína til að taka hana og mögulega eru þessi dæmi byr undir vængi þeirra sem vilja fá einhverskonar VAR hér í deildina.

Jóhann Ingi lyfti rauðu spjaldi á Harald Björnsson markmannsþjálfara.Vísir / Diego

Viðtöl

Hallgrímur: Menn mega ekki slaka á eitt prósent

Hallgrímur Jónasson gat verið ánægður með sína menn.Vísir / Diego

Þjálfari KA Hallgrímur Jónasson var ánægður með ýmislegt þegar hann var spurður að því hvort hann væri ánægður með niðurstöðunar eftir 1-1 jafntefli við Breiðablik fyrr í dag.

„Já og fyrst og fremst bara ánægður með strákana. Við vorum að koma úr erfiðu verkefni, bæði líkamlega þar sem við spiluðum 120 mínútur gegn frábæru liði fyrir nokkrum dögum og svo andlega að detta úr keppni á svolítið sáran hátt. Það sýnir bara hvað við höfum verið flottir að mér finnst síðustu vikurnar. Það eru allir að standa saman og vinna fyrir hvorn annan. Frábært stig á útivelli gegn virkilega flottu liði Breiðabliks sem var búið að fá meiri hvíld en við fyrir þennan leik.“

Fannst Hallgrími að KA ætti öll stigin skilið?

„Ég veit það ekki. Ég held að jafntefli hafi verið sanngjarnt þó við höfum skapað okkur einhver færi. Við fengum á okkur ódýrt víti, sem ég reyndar held að sé rétt dæmt, það var pirrandi lítið en sennilega rétt. Bæði lið hefðu getað skorað fleiri mörk. Ég var ánægður með orkustigið og hvernig menn unnu saman. Við erum komnir á fínan stað og tökum þessu stigi fagnandi og erum klárir á móti ÍBV á heimavelli í næstu umferð.“

Frammistöður undanfarinna daga hljóta að gefa góð fyrirheit fyrir KA í baráttunni framundan.

„Já 100%. Ég sem þjálfari er búinn að vita lengi að þetta býr í liðinu mínu. Það er svo mitt hlutverk og allra að kalla þetta fram. Þetta er að koma núna og það gleður mig mikið en menn mega ekki slaka á eitt prósent. Þetta er ótrúlega jafnt og ÍBV gerði vel síðast þannig að það er flott verkefni á heimavelli. Ég er virkilega virkilega ánægður með strákana. Það er svo auðvelt að fara að svindla í varnarleiknum þegar lappirnar eru búnar en það gerði það enginn í dag.“

Um markið sem var dæmt af þá var Hallgrímur spurður út í tilfinninguna þegar markið var dæmt af.

„Tilfinningin var góð. Ég reyndar sá ekki hvað gerðist, ég var að pirra mig á einhverju öðru atriði. Við lásum ekki leikinn rétt, það fóru tveir út að hornfána þegar þeir voru alltaf að fara að sparka inn í. Ég sá ekki hvað gerðist en þetta var mikill léttir en mínir menn sögðu að þetta hafi verið hendi og réttur dómur.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira