Erlent

Í á­falli eftir að hafa fengið bréf frá á­rásar­manninum inn um lúguna

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Árásin átti sér stað 20. desember síðastlðinn.
Árásin átti sér stað 20. desember síðastlðinn. Getty/Halil Sagirkaya

Einstaklingar sem urðu fyrir meiðslum þegar maður ók á fólk á jólamarkaði í Magdeburg í desember síðastliðnum, segjast hafa orðið fyrir öðru áfalli nú þegar þeim bárust á dögunum afsökunarbeiðnir frá gerandanum.

Sex létust, þeirra á meðal sex ára gamalt barn, og hundruð særðust, nokkrir alvarlega, þegar geðlæknirinn Taleb al-Abdulmohsen, frá Sádi Arabíu, ók inn í mannþröngina á jólamarkaðnum. Hann situr í gæsluvarðhaldi þar sem málið hefur ekki enn ratað fyrir dómstóla.

„Við trúðum þessu ekki í fyrstu,“ hefur dagblaðið Magdeburger Volksstimme eftir einum af þeim sem fékk handskrifað bréf sent frá al-Abdulmohsen. „Við fengum sjokk þegar við snérum aftur úr fríi og fundum bréfið í bréfakassanum,“ sagði annar í samtali við MDR. „Hvernig getur morðingi nálgast heimilisföng þolenda?“

Samkvæmt miðlum í Magdeburg bað al-Abdulmohsen, 50 ára, viðkomandi fyrirgefningar og óskaði þeim velfarnaðar. En hann lét einnig fylgja ruglingslegar hugleiðingar á borð við þær sem hann birti á samfélagsmiðlum áður en hann lét til skarar skríða.

Þær vörðuðu reiði gagnvart stjórnvöldum í Þýskalandi og samsæriskenningar um meinta viðleitni stjórnvalda til að íslam-væða Evrópu.

Undir bréfin ritaði hann: „Vinakveðja“.

Talið er að al-Abdulmohsen hafi fengið heimilisföngin í gegnum gögn frá verjendum sínum. Ljóst er að saksóknaraembættið sem fer með málið gegn honum vissi að hann hefði sent bréfin en það hafði merkt þau sérstaklega til að vara viðtakendurna við innihaldinu.

Eftir atvikið hefur reglum verið breytt og framvegis haft samband við þolendur símleiðis áður en bréf frá gerendum eru send áfram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×